14 Janúar 2009 12:00
Eins og flestir vita eru verkefni lögreglunnar af ýmsum toga. Þeim þarf að forgangsraða og ekki er hægt að bregðast samstundis við öllum tilkynningum. Flestir sýna því skilning líkt og maðurinn í Hafnarfirði, sem hringdi í lögregluna á dögunum. Í íbúð hans var kominn ókunnur köttur og vildi maðurinn að lögreglan kæmi og fjarlægði dýrið. Honum var tjáð ekki væri hægt að bregðast við tafarlaust enda fylgdi sögunni að kötturinn væri svosem ekkert ófrýnilegur. Maðurinn lét sér það vel lynda en tók síðan til sinna ráða, handsamaði köttinn og fór með hann á lögreglustöðina. Farið var yfir málið en áhyggjur mannsins voru skiljanlegar. Hinn óboðni gestur, sem var fressköttur, hafði nokkrum sinnum áður farið inn í sömu íbúð en eigandi hennar, maðurinn sem tók til sinna ráða, er sjálfur með kött, læðu. Varpaði þetta ljósi á atburðarásina og skýrði þessar heimsóknir. Hinum óboðna ketti var þar næst sleppt úr haldi og hefur hann síðan haldið sig réttu megin við lögin.