18 Janúar 2023 15:26
- Árið 2022 voru fleiri nauðganir tilkynntar til lögreglu miðað við sl. 3 ár en fjöldi tilkynntra kynferðisbrota gegn börnum var nánast óbreyttur
- Að jafnaði var tilkynnt um 22 nauðganir á mánuði til lögreglu.
- Heildarfjöldi tilkynntra kynferðisbrota árið 2022 er svipaður og meðaltal síðustu þriggja ára þar á undan.
- Brotum gegn kynferðislegri friðhelgi (stafræn brot) fjölgaði um helming miðað við árið 2021.
- Sexan, stuttmyndasamkeppni meðal 7. bekkinga ætlað að fræða um birtingarmyndir stafræns ofbeldis: Nektarmynd, slagsmál, tæling eða samþykki.
Ný skýrsla ríkislögreglustjóra um kynferðisbrot hefur verið birt á vefsvæði lögreglunnar. Í skýrslunni má finna upplýsingar um fjölda tilkynninga til lögreglu vegna kynferðisbrota árið 2022. Þegar litið er til kynferðisbrota sem tilkynnt eru lögreglu árið 2022 má sjá að tilkynnt brot voru 634 talsins á árinu 2022 eða svipuð að meðaltali samanborið við síðustu þrjú ár þar á undan. Frá 2018-2022 hefur lögreglu verið tilkynnt um að jafnaði yfir 600 kynferðisbrot á ári en fjöldi mála hjá lögreglu var almennt lægri fyrir þann tíma.
Lögreglan skráir bæði hvenær kynferðisbrotið átti sér stað og hvenær það var tilkynnt til lögreglu þar sem í hluta mála líður langur tími frá því að brot á sé stað og þar til það er tilkynnt til lögreglu. Í fyrra var þannig tilkynnt um 262 nauðganir til lögreglu, og þar af 184 sem áttu sér stað á árinu. Frá 2010 hefur aðeins einu sinni verið tilkynnt um fleiri nauðganir til lögreglu en árið 2022. Var það árið 2018 þegar tilkynnt var um 270 nauðganir, þar af 218 sem áttu sér stað það ár.
Skráðum brotum hjá lögreglu um kynferðisbrot gegn börnum sem áttu sér stað árið 2022 fækkaði um helming, samanborið við meðaltal síðustu þriggja ára og voru þau 52 talsins. Alls var tilkynnt um 114 kynferðisbrot gegn börnum, og samanborið við meðaltal síðustu þriggja ára var fjöldi tilkynntra mála svipaður.
Fjölgun tilkynninga og fækkun brota
Eitt af meginmarkmiðum lögreglunnar samkvæmt gildandi löggæsluáætlun 2019-2023 er að hlutfall þeirra sem hafa orðið fyrir kynferðisbrotum og tilkynna það til lögreglu aukist á tímabilinu um leið og kynferðisbrotum fækki. Í þolendakönnun lögreglunnar 2022 fyrir árið 2021 kom fram að 2,3% svarenda höfðu orðið fyrir kynferðisbroti og 19% þeirra tilkynntu brotið til lögreglu. Í samanburði við fyrri rannsóknir hefur ekki áður jafn hátt hlutfall landsmanna tilkynnt kynferðisbrot til lögreglu.
Ætíð er hægt að tilkynna brot með því að hafa samband við 112. Sjá einnig leiðarvísir um meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu á ofbeldisgátt 112.is.
Stafrænum brotum fjölgar
Brot gegn kynferðislegri friðhelgi voru gerð að lögum í febrúar 2021. Voru 79 slík brot tilkynnt á síðasta ári, og þar af 59 sem áttu sér stað árið 2022. Er þar um rúmlega helmingsaukning frá 2021. Þegar tegund þessara brota eru greind nánar eftir eðli þeirra má sjá að í um 40% tilvika er um að ræða myndefni sem dreift er í afmörkuðum hópi og í 27% tilvika var myndefni útbúið eða aflað af sakborningi.
Brot gegn kynferðislegri friðhelgi 2022, eðli brota:
Samantekt má finna hér
Til að vinna gegn stafrænu ofbeldi stendur nú yfir Sexan, stuttmyndasamkeppni fyrir 7. bekkinga í grunnskólum landsins um mörk og samþykki, en einnig um tilurð, birtingarmyndir og afleiðingar stafræns ofbeldis. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar Fjölmiðlanefndar um nektarmyndir á meðal grunnskólabarna kemur fram að 51% stúlkna og 22% stráka hafa verið beðin um nektarmynd. Bestu stuttmyndirnar verða svo sýndar á UngRÚV í viku sex, kynfræðsluvikunni 6.-10. febrúar nk.
Sjá nánar á www.112.is/sexan
—
Nánari upplýsingar veitir Guðbjörg S. Bergsdóttir, sérfræðingur hjá þjónustusviði Ríkislögreglustjóra, gudbjorgs@logreglan.is og Eygló Harðardóttir, verkefnisstjóri aðgerða gegn ofbeldi, eyglohardar@logreglan.is