30 Nóvember 2022 13:03
- Lögreglunni bárust tilkynningar um 195 nauðganir á fyrstu níu mánuðum ársins.
- Tilkynnt að jafnaði um 22 nauðgun á mánuði.
- Vitundarvakningu gegn kynferðisofbeldi framhaldið í aðdraganda hátíðanna.
Ný skýrsla ríkislögreglustjóra um kynferðisbrot hefur verið birt á vefsvæði lögreglunnar. Í skýrslunni má finna upplýsingar um tilkynningar til lögreglu vegna kynferðisbrota fyrstu níu mánuði ársins. Lögreglan skráði tilkynningar 195 nauðganir fyrstu níu mánuði ársins 2022, sem samsvarar 26% fjölgun frá því í fyrra. Að meðaltali eru núna skráðar tilkynningar um 22 nauðgun á mánuði hjá lögreglunni.
Í málaskrá lögreglunnar vegna kynferðisbrota er bæði skráð hvenær brot eru tilkynnt og hvenær þau áttu sér stað. Ástæða þess er að í kynferðisbrotum líður oft tími á milli þess að brotið á sér stað og tilkynnt er um það til lögreglu. Þegar horft er til tíma brots, var tilkynnt um 146 nauðganir sem áttu sér stað fyrstu níu mánuði ársins eða 16 nauðganir á mánuði, sem samsvarar 16% aukningu frá sama tímabili í fyrra.
10% grunaðra undir 18 ára.
Lögreglan skráði í allt 490 tilkynningar um kynferðisbrot á tímabilinu, sem samsvarar tæplega 2% fækkun tilkynninga á milli ára og tæpum tveimur tilkynningum til lögreglu að meðaltali á dag. Skráðum blygðunarsemisbrotum og kynferðisbrotum gegn börnum fækkar en brotum sem flokkast sem kynferðisleg áreitni og brotum gegn kynferðislegri friðhelgi fjölgar. Brotin eru svipuð að fjölda og yfir sama tímabil í fyrra og árið 2019, en voru færri árið 2020 þegar Covid-19 faraldur stóð sem hæst. Í sumum tilvikum er tilkynnt um eldra brot, en um 20% tilkynntra brota voru eldri brot, þ.e. áttu sér stað fyrir árið 2022.
Meðalaldur sakborninga í kynferðisbrotamálum er 35 ár. Um 95% grunaðra í kynferðisbrotum eru karlar, meirihlutinn á bilinu 18-45 ára. Þó eru um 10% grunaðra undir 18 ára.
Áfram hvatt til að tilkynna til lögreglu.
Vitundarvakningu dómsmálaráðherra, Neyðarlínunnar, ríkislögreglustjóra og hinna ýmsu samstarfsaðila gegn ofbeldi verður framhaldið með áherslu á að vinna gegn ofbeldi og áreitni í aðdraganda hátíðanna. Almenningur er hvattur til að skemmta sér vel og að góð skemmtun er þegar við öll getum verið örugg fyrir kynferðislegu ofbeldi og áreitni. Ef áhyggjur vakna er rétt að leita til Neyðarlínan – 112 aðstoðar í neyð, segðu frá, ofbeldi er alls konar.
Á Leiðarvísir um réttarvörslukerfi fyrir þolendur kynferðisbrota (112.is) má finna greinagóðan upplýsingar fyrir þolendur kynferðisbrota þ.m.t. svör við spurningum hvernig er hægt að tilkynna kynferðisbrot, hvert er hægt að leita til að fá aðstoð, hvað gerist þegar kynferðisbrot er kært og góð ráð frá þolendum sem hafa verið með mál í réttarvörslukerfinu, fagaðilum og starfsfólki lögreglu og héraðssaksóknara.
Ríkislögreglustjóri birtir ársfjórðungslega tölfræðiupplýsingar um kynbundið ofbeldi, kynferðisbrot og heimilisofbeldi í samræmi við áherslur dómsmálaráðherra um aukna vitundarvakningu um kynferðisbrot og kynbundið ofbeldi.
Upplýsingar eru aðgengilegar á síðu lögreglunnar um tölfræði vegna kynbundins ofbeldis.
Nánari upplýsingar veitir Gunnar H. Garðarsson, samskiptastjóri ríkislögreglustjóra gunnarhg@logreglan.is