20 Desember 2008 12:00
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur sent frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu:
Nefnd sem Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra skipaði 20. ágúst 2007 til að gera tillögur um uppbyggingu alhliða löggæslu- og öryggismálaskóla hefur skilað skýrslu til ráðherra. Þar leggur hún til að Lögregluskóli ríkisins beri það heiti áfram og starfsemi skólans verði efld eins og kostur er fyrir lögregluna. Þar verði jafnframt gert ráð fyrir menntun fangavarða auk þess sem þeir starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands, sem á þurfa að halda starfa sinna vegna, fái þar menntun og þjálfun í lögreglufræðum. Námið myndi þá skiptast í lögreglunám, fangavarðanám og gæslunám.
Nefndin tekur undir sjónarmið ráðherra og leggur til að Lögregluskóli ríkisins verði áfram sjálfstætt lögregluembætti sem heyri undir dóms- og kirkjumálaráðuneyti. Jafnframt verði skólinn áfram í sömu tengslum við embætti ríkislögreglustjóra og önnur lögreglustjóraembætti í landinu, sem og aðra aðila er koma að öryggismálum.
Þá leggur nefndin til að skólinn geti einnig, í samstarfi við hlutaðeigandi aðila, haldið námskeið fyrir aðrar stéttir sem sinna afmörkuðum þáttum er tengjast löggæslu, öryggisþjónustu og öryggismálum.
Í skýrslu nefndarinnar kemur fram að námskrár vegna lögreglunáms og fangavarðanáms liggi fyrir og landhelgisgæslan ljúki við námskrárgerð vegna gæslunáms innan tíðar. Nefndin telur að þegar fram í sækir verði samlegðaráhrif þessara þriggja námsleiða meiri. Einnig er lagt til að námið verði launalaust í framtíðinni enda verði það lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna.
Nefndinni var m.a. falið í erindisbréfi að leggja mat á kosti og galla þess að skólinn yrði áfram allur eða að hluta á núverandi stað við Krókháls í Reykjavík eða að hann flyttist allur eða að hluta á fyrrverandi varnarsvæði við Keflavíkurflugvöll. Meirihluti nefndarinnar telur að skólinn sé betur settur á núverandi stað en á varnarsvæðinu. Nefndin telur hins vegar að skólinn eigi að nýta sér þá aðstöðu sem þar er fyrir verklegar æfingar eftir þörfum.
Formaður nefndarinnar var Ólafur K. Ólafsson, sýslumaður Snæfellinga, og aðrir fulltrúar í henni voru Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögfræðingur í dóms- og kirkjumálaráðuneyti, Hjálmar Árnason, forstöðumaður hjá Keili, Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, Gunnlaugur V. Snævarr, yfirlögregluþjónn hjá Lögregluskóla ríkisins, Einar Andrésson, formaður fangavarðafélagsins, og Svanhildur Sverrisdóttir, starfsmannastjóri landhelgisgæslunnar.
Skýrslu nefndarinnar er að finna á heimasíðu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, http://www.domsmalaraduneyti.is/.