4 Nóvember 2022 15:05
Á þessum degi fyrir hálfri öld, eða þann 4. nóvember árið 1972, flutti lögreglan úr Pósthússtræti 3 og í nýja og glæsilega lögreglustöð á Hverfisgötu 113-115. Þetta voru mikil tímamót enda var orðið mjög þröngt um starfsemi lögreglunnar í Pósthússtræti. 50 árum síðar má segja að það sama eigi við en núna er vonast til að lögreglan flytji í aðra, nýja og glæsilega lögreglustöð innan fárra ára og deili þá húsakynnum með fleiri viðbragðsaðilum.
Bygging lögreglustöðvarinnar á Hverfisgötu þótti mikið framtak á sínum tíma og það var rifjað upp í vefriti starfsmanna Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sem gefið var út um nokkurra ára skeið. Meðfylgjandi er eitt tölublað vefritsins þar sem hluti þessarar sögu var til umfjöllunar.