20 Október 2022 15:45
  • Efla þarf lögreglu á landamærum til að vinna gegn skipulagðri brotastarfsemi.
  • Mikil aukning á tilraunum til fíkniefnainnflutnings á Keflavíkurflugvelli. Í mörgum tilvikum eru upplýsingar um að brotahópar séu að nýta sér neyð einstaklinga.
  • Fjöldi umsækjenda um alþjóðlega vernd hefur aukist mikið. Þetta er fólk í viðkvæmri stöðu sem er hætta á að skipulagðir brotahópar hagnýti, t.d. með smygli og mansali. Alþjóðleg löggæsluyfirvöld hafa varað við því að skipulagðir hópar nýti sér aðstöðu þeirra einstaklinga sem eru í viðkvæmri stöðu.
  • Íslenskir aðilar sem búsettir eru erlendis stýra sumum af þeim hópum sem starfa hér á landi.
  • Fjárfesta þarf í búnaði til þess að sinna upplýsingamiðaðri löggæslu og tryggja skilvirkni.
  • Efla þarf alþjóðlegt samstarf enn frekar.

Greiningardeild embættis ríkislögreglustjóra vinnur árlega stöðumat á skipulagðri brotastarfsemi. Stöðumatið sjálft er vinnuskjal sem aðstoðar lögregluyfirvöld að bera kennsl á álagspunkta og skýra verkefni til skilvirkar forgangsröðunar. Í ár unnu sérstakir rýni- og ráðgjafahópar greiningar á afmörkuðum brotaflokkum en hóparnir voru skipaðir helstu sérfræðingum á viðkomandi afbrotasviði, fyrirmyndin af þessari nálgun er fengin frá Europol. Í þessari tilkynningu er greint frá meginþáttum í þessu stöðumati fyrir skipulagða brotastarfsemi á Íslandi á árinu 2022.

 

Fíknefnabrot og mansal

Skipulögð brotastarfsemi á Íslandi er umfangsmikil og alþjóðleg í eðli sínu. Starfsemin er skipulögð á þann veg að erfitt er greina brotin nema heildarmynd starfseminnar liggi fyrir. Ljóst er að að íslenskir aðilar búsettir erlendis stýra ákveðnum brotahópum hér á landi. Málin eru fjölbreytt í eðli sínu en mörg hver snúa að hagnýtingu skipulagðra brotahópa á fólki í viðkvæmri stöðu, til að mynda til fíknefnasmygls og mansals. Mikil aukning mála hefur verið hjá lögreglu á landamærum Íslands sem tengja má skipulagðri brotastarfsemi.

Mynd 1 – Fjöldi fíkniefnamála vegna gruns um innflutning á Keflavíkurflugvelli og heildar fjöldi brota  á árunum 2015 til 2021 og það sem af er þessu ári.

Þessi þróun skýrist m.a. af stærstu haldlagningu fíkniefna í Íslandssögunni sem myndaði tækifæri fyrir aðra til að komast að á íslenskum fíkniefnamarkaði. Að heimsfaraldri loknum hefur þrýstingur vaxið á landamærum með auknu farþegastreymi sem hefur aukið álag á löggæslu á margvíslegan hátt.

Myndun innlendra rannsóknarhópa þar sem starfsfólk margra embætta, t.d. ríkislögreglustjóra, ólíkra lögregluembætta, héraðssaksóknara og tollstjóra, hefur unnið að þessum rannsóknum í sameiningu hefur reynst mjög árangrusrík nálgun til þess að ná utanum þessi mál. Þá hefur samstarf lögreglu við erlend lögreglulið og samstarfsvettvangur Europol skipt sköpum í meðferð þessara sömu mála.

Fjölmörg mál hafa komið upp á Norðurlöndunum sem lúta að hagnýtingu flóttafólks frá Úkraínu. Líkt og víðar í Evrópu er þörf að vinna frekari greiningu á stöðu þessa hóps þegar kemur að mansali og smygli á fólki. Þessi veruleiki endurspeglar það sem komið hefur fram í skýrslum Europol um áhættu á því að fólk sem er að sækja um alþjóðlega vernd er oft í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem skipulagðir brotahópar hafa hagnýtt sér. Dómsmálaráðuneytið gaf út upplýsingaefni um vísbendingar um mansal fyrr á árinu sem var meðal annars dreift til þeirra sem koma að móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd. Fyrr í þessum mánuði í heimsókn ÖSE á íslandi brýndu fulltrúar ÖSE fyrir Íslenskum stjórnvöldum mikilvægi þess að efla frumkvæðisrannsóknir í mansalsmálum og efla þjálfun lögreglu og saksóknara í málaflokknum.

Skilin á milli mansals og smygl á fólki eru ekki ávallt skýr, sérstaklega í upphafi rannsókna. Þá geta mál sem í eðli sínu eru mál er varða smygl á fólki orðið að mansalsmálum, einkum ef hagnýting á fólki á sér stað í kjölfar flutnings/smygls á fólki. Mál er varða mansal þarf að sanna á grundvelli gagna þar sem oft eru ekki fyrir hendi s.s. framburðar þolenda sem eru oft ósamvinnuþýðir við rannsóknir og líta jafnvel ekki á sig sem þolendur. Vísbendingar um tengsl mála við alþjóðlega skipulagða brotastarfsemi eru því verðmætar í slíkum rannsóknum og skiptir þar öflugt alþjóðlegt samstarf lögreglu höfuð máli.

Rétt þykir að ítreka að lögregla leggur jafnan áherslu á mikilvægi þess að hugað sé þolendum mansals og mikilvægt er að fyrirtæki jafnt sem stjórnvöld/ stofnanir hafi leiðbeiningar um einkenni mansals í huga við starfsemi sína. Ýmis úrræði eru í boði til að tilkynna mansal: Neyðarlínan 112 tekur við tilkynningum svo og Bjarkarhlíð, 1717 Hjálparsími/netspjall Rauða krossins, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Fjölmenningarsetur, Kvennaathvarfið í Reykjavík og á Akureyri.

Skipulögð brotastarfsemi breytist eftir því hvar mesta fjármuni er að finna hverju sinni enda sóst eftir fjárhagslegum ábata í þessum brotum. Talið er öruggt að umfangsmikið peningaþvætti fari fram á Íslandi en mikil fjölgun hefur orðið á peningaþvættismálum hjá lögreglu sem orsakast af áherslubreytingum stjórnvalda og í löggæslu. Ljóst er að tækifæri eru til að auka upptöku ólögmæts ávinnings af skipulagðri brotastarfsemi.

 

Álag á landamærum

Fjöldi mála á landamærum sem tengjast óreglulegum fólksflutningum hefur aukist á ný eftir heimsfaraldurinn, en þá fækkaði málum á landamærum töluvert enda auknar takmarkanir á ferðum fólks. Málafjöldinn árið 2022 hefur hins vegar ekki náð þeim fjölda sem var á árunum fyrir heimsfaraldurinn ef undan eru skildar umsóknir um alþjóðlega vernd.

Umsóknum um alþjóðlega vernd hefur fjölgað hratt síðasta árið. Þrátt fyrir að stærsti hluti þessa hóps sé að flýja stríðsástand í Úkraínu þá má einnig sjá aukningu í umsóknum frá öðrum hópum, s.s. frá Venesúela, Palestínu, Sýrlandi og Kólumbíu.

Mynd 2 – Fjöldi umsókn um alþjóðlega vernd 2015-2021 og það sem af er árið 2022

Eftir því sem fjöldi umsækjenda um alþjóðlega vernd eykst sem og álag á móttökukerfi lögreglu, á landamærum og inni í landi. Þá fylgir komu stórra hópa aukin hætta á því að brotahópar hagnýti sér viðkvæma stöðu þeirra til að mynda með smygli á fólki og mansali. Því er nauðsynlegt að lögregla og aðrir viðbragðsaðilar búi yfir nægum starfskrafti til að sinna móttöku, skráningu og eftirfylgni við þennan hóp.

Niðurstöður stöðumats

Mat ríkislögreglustjóra er að miðað við núverandi stöðu þurfi sterk viðbrögð stjórnvalda í því skyni að sporna gegn þessari þróun. Skipulögð brotastarfsemi mun að öðrum kosti aukast enn frekar sem felur í sér ógn við öryggi samfélags, öryggi fólks í viðkvæmri stöðu sem leitar verndar á Íslandi og hefur í för með sér neikvæðar fjárhagslegar og samfélagslegar afleiðingar. Leiða má líkur að því að skipulagðir brotahópar muni hagnýta sér veikleika á landamærum hvar sem þá er að finna og er það í samræmi við niðurstöður Europol um afbrot innan Evrópu. Umfang og staða skipulagðrar brotastarfsemi hér á landi er alvarleg.

  • Efla þarf getu lögreglu enn frekar til að sporna gegn skipulagðri brotastarfsemi og sjáanlegri þróun brota við landamæri Íslands.
  • Upplýsingamiðuð löggæsla krefst þess að fjárfesta þarf í nauðsynlegum vél- og hugbúnaði til að tryggja skilvirka úrvinnslu og miðlun þeirra upplýsinga sem lögregla skráir.
  • Efla þarf alþjóðlegt samstarf enn frekar.

Nánari upplýsingar veitir,
Gunnar Hörður Garðarsson, samskiptastjóri embættis ríkislögreglustjóra
gunnarhg@logreglan.is