17 Október 2022 17:30
Við erum að sjá nokkrar atlögur nú um helgina þar sem glæpamenn komast yfir fésbókarsíður einstaklinga og senda á þá skeyti um leiki og verðlaun. Sérstaklega eldra fólk er grandlaust og heldur að vinur sé í sambandi og sendir símanúmer, myndir af greiðslukortum og staðfestir kóða. En það sem er að gerast er að glæpamenn eru að misnota samskiptin, þeir fara inn á heimabanka, hækka heimild á greiðslukort og fara og versla vörur í öðrum löndum. Þetta tekur um 15 mínútur og tapið í nokkrum nýlegum málum er um milljón.
Góðar reglur:
• Verið tortryggin á skrýtin skilaboð frá vinum
• Alls ekki taka myndir af kortum og setja það á samfélagsmiðla
• Ekki staðfesta kóða í síma sem leiða frá svona spjalli
• Ef þetta er skrítið, hættið þessum samskiptum og hringið í vin ykkar og kannið hvað er í gangi
• Textamyndir eru hættumerki, nema frá börnum. Ef þið fáið þau frá vinum sem eru ekki vön að nota þau, þá eru það líklega aðrir sem eru búnir að stela reikningi þeirra.
Það eru margar leiðir til að „hakka“ sig inn á Facebook reikninga og því er þessi samskiptamáti afar ótraustur.
Brotaþolar eru oftast yfir 50 ára. Ef þið eigið ástvini á Facebook sem eru á þessum aldri og eldri, varið þau við.