29 Ágúst 2022 15:09
Íslensk og pólsk lögregluyfirvöld gerðu með sér samkomulag árið 2019 um aukið samstarf og samvinnu í baráttunni gegn skipulagðri brotastarfsemi. Aðaláherslan er lögð á baráttuna gegn fíkniefnavandanum og brotahópum sem standa að sölu og dreifingu fíkniefna, innflutningi og ekki síst framleiðslu þeirra. Þjóðirnar hafa þegar átt með sér gott samstarf á þessu sviði, en það er eflt verulega með umræddu samkomulagi.
Heimsfaraldur setti reyndar strik í reikninginn, en nú hefur verið settur fullur kraftur í verkefnið. Þessu fylgja kynningar, fræðsla og þjálfun fyrir báða aðila, en íslenskir lögreglumenn hafa þegar farið til Póllands þessara erinda og hafa pólskir lögreglumenn sömuleiðis endurgoldið heimsóknina. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi samkomulagsins, sem íslensk lögregluyfirvöld binda miklar vonir við, en það felur jafnframt í sér að aðilar deili með sér upplýsingum sem kunna að koma að gagni við rannsóknir mála og ekki síður að koma í veg fyrir brot.
Skipulögð brotastarfsemi er vaxandi vandamál og því mikilvægt að á því sé tekið. Fyrrnefnt samkomulag er liður í því, en um það má lesa nánar á ensku í meðfylgjandi skjali.