20 Ágúst 2022 11:09
Reykjavíkurmaraþonið stendur nú yfir, en fyrstu hlaupararnir voru ræstir á níunda tímanum í morgun. Hlaupnar verða fjórar mismunandi vegalengdir og er búist við um átta þúsund þátttakendum í Reykjavíkurmaraþoninu þetta árið. Síðasta ræsing er kl. 12 og því verða hlauparar á ferðinni á götu borgarinnar eitthvað fram yfir hádegi. Aðrir vegfarendur eru minntir á að sýna tillitssemi og þolinmæði vegna þessa.
Dagskráin á Menningarnótt er annars mjög fjölbreytt og skemmtileg og þar er örugglega að finna eitthvað við allra hæfi. Í dag er spáð norðlægri átt og það verður skýjað með köflum, en síðdegis verður hægari vindur og það mun létta til. Gestum hátíðarinnar er bent á að frítt er bæði í strætó og skutlþjónustu strætó, en hún ekur frá Laugardalshöll um Borgartún og Hlemm að Hallgrímskirkju og til baka.
Lögreglan stendur að sjálfsögðu sína vakt á Menningarnótt og viðbúið er að það verði í ýmis horn að líta. Að vera við störf á Menningarnótt er þó iðulega gaman enda kemur fólk þá saman til að njóta samvista við aðra, til að skemmta sér á heilbrigðan hátt og að hafa gaman af því sem lífið hefur upp á að bjóða.