29 Júlí 2022 17:29
Kæru þjóðhátíðargestir, góðan og blessaðan daginn og gleðilega hátíð.
Það er mér mikill heiður að standa hér 55 árum eftir að ég kom fyrst á þjóðhátíð þá 4 mánaða með foreldrum mínum.
Það er einmitt eitt af því sem einkennir þjóðhátíðina, kynslóðabilið hverfur og við gleðjumst saman á Heimaey í dalnum okkar. Dalnum sem var svartur af ösku sumarið 1973 en ekki kom til greina að halda ekki þjóðhátíð. „Þrátt fyrir böl og alheimsstríð, þá verður haldin Þjóðhátíð!“ Mikið var lagt á sig og hátíðin haldin á Breiðabakka. Eftir það var talið að raunverulega ekkert gæti komið í veg fyrir að hátíðin væri haldin en annað átti eftir að koma á daginn.
Núna þegar veturinn fór að láta undan og vorið nálgaðist fóru bjartar vonir að vakna um að halda mætti þjóðhátíð eftir tvö ár í skugga heimsfaraldurs. Í heimsfaraldri þar sem taka þurfti margar erfiðar ákvarðanir. ÍBV tók þá erfiðu en samfélagslegu ábyrgu ákvörðun að fresta þjóðhátíð í fyrsta sinn í sögunni. Ekki bara einu sinni heldur tvisvar. Ákvörðun ÍBV var einkennandi fyrir samstöðuna sem mátti finna víða í baráttunni við faraldurinn. Samstöðu sem við getum lært af og nýtt okkur við úrlausn erfiðara verkefna. Samstöðu sem sýndi okkur að ekkert er óyfirstíganlegt þrátt fyrir mismunandi skoðanir og áherslur.
En nú erum við komin saman enn á ný í Dalnum okkar og ætlum að lifa og njóta í núinu með okkar besta fólki og hafa það í huga að lífið er yndislegt.
Ég á margar góðar minningar frá þjóðhátíð, þátttaka í íþróttaviðburðunum á Breiðabakka fyrst eftir gos, rukka í bekkjarbíl hjá Hauk á Reykjum og að vera um árabil hluti að þeim flotta hóp frá Björgunarfélaginu sem sá um flugeldasýninguna. En dýrmætastar eru minningar um ólýsanlega vináttu, rómantík og ást, kvöldvökur í brekkunni með vinum og fjölskyldu og góðar stundir í hvíta tjaldinu okkar.
Talandi um hvítu tjöldin. Gestrisni Eyjafólks er einstök flestir taka á móti mörgum gestum á þjóðhátíð og mikið lagt í viður gjörning.
Því miður er alltaf eitthvað um óboðna gesti í tjöldunum. Fyrir nokkrum árum kom hingað ungur maður sem gekk hratt um gleðinnar dyr og á hann sótti þreyta þegar fór að líða fram yfir miðnætti. Hann kíkti inn í eitt tjaldið og þar var enginn. Lagðist piltur til hvílu á bekk og var við að sofna þegar tjaldeigendur komu og vísuðu honum út. Ekki leið á löngu þar til að pilturinn sá að fólkið fór aftur út og stefndi á brekkuna þannig að hann sá sér leik á borði og fór aftur inn. Nú ákvað hann að betri hvíldarstaður væri kistill einn stór og mikill sem stóð úti í horni. Tók hann gos og bakkelsi úr kistlinum og lagðist til svefns. Einhvertímann um nóttina vaknar piltur við söng og gleði í tjaldinu. Ætlar að koma sér út en gat ekki opnað kistilinn því setið var á honum. Tók hann því til þess ráðs að banka. Datt allt í dúnalogn og kistilinn opnaður og ekki ofsagt að tjaldbúar hafi verið orðlausir þegar hann gekk út og þakkaði fyrir lúrinn.
Ágætu þjóðhátíðargestir.
Þegar margir koma saman, gleðin tekur völdin, áfengi haft um hönd og almenn skynsemi verður kannski ekki svo almenn fylgir því miður ofbeldi af ýmsum toga. Við þurfum að ræða ofbeldi ekki bara á tilli dögum eða í tengslum við stórar hátíðir. Einstaklingar verða fyrir ofbeldi alla daga allt árið. Ofbeldi er aldrei ásættanlegt. Við getum öll tekið þátt í umræðunni og sýnt vanþóknun okkar á ofbeldi og þannig hjálpað til við að koma í veg fyrir það.
Á þjóðhátíð er mikið gert til að tryggja öryggi okkar. Gæslan hér í dalnum er öflug og ávallt stutt í aðstoð og við skulum ekki hika við það að koma þolendum til aðstoðar með því að kalla til gæsluna eða lögreglu.
Ef þú verður fyrir ofbeldi þá er fagfólk á vakt alla hátíðina og ekki hika við að leita aðstoðar. Gæslan, lögreglan og heilbrigðisstarfsfólk taka vel á móti þolendum. Einnig má alltaf hringja í 112.
Við munum trúa þér og styðja þig!
Það eru gerendur sem bera ábyrgðina ekki gleyma því! Gerendur eiga engan rétt til að beita aðra ofbeldi. Skilum skömminni þangað sem hún á heima!
Fólk á þjóðhátíð og um allt land á að geta skemmt sér vel og vera öruggt. Því ætlum við að skemmta okkur saman þessa helgi án ofbeldis. Verum vakandi!
Í 10 ár hefur forvarnahópurinn Bleiki fíllinn staðið fyrir vitundarvakningu gegn ofbeldi. Þau hafa dregið margt fram í dagsljósið sem falið var og þótti ekki rétt að ræða. Þau hafa nú látið gott heita um sinn og vill ég nota tækifærið og þakka þeim fyrir óeigingjarnt starf fyrir okkur öll. Slagorð þeirra Við viljum enga Bleika fíla í okkar liði gleymist ekki.
Kæru þjóðhátíðargestir.
Í góðu samfélagi skiptir virðing svo miklu máli. Við erum öll einstök. Við viljum einfaldlega fá að vera við sjálf.
Berum virðingu hvert fyrir öðru. Óháð kyni, kynhneigð, uppruna eða hverju sem gerir okkar samfélag svo gott og svo fjölbreytt. Hatur og fordómar eiga ekki heima í okkar samfélagi. Réttindabarátta hinsegin fólks virðist vera að færast aftur um mörg ár. Ótrúleg framkoma fullorðins fólks er fréttaefni. Við getum ekki látið þetta viðgangast. Við getum lagt okkar að mörkum! Fögnum fjölbreytileikanum. Þjóðhátíð er hátíð allra.
Góðir þjóðhátíðargestir.
Þjóðhátíðin væri lítið án allra sjálfboðaliðanna og starfsfólksins sem koma að framkvæmdinni. Þau skipta hundruðum. Þeim erum við öll þakklát.
En Þjóðhátíð er svo miklu meira en tónlist, brennan, flugeldasýningin eða brekkusöngurinn.
Þjóðhátíð er hátíð fjölskyldunnar, hátíð gamalla vina, hátíð þar sem við eignumst nýja vini, hátíð þar sem hjartað slær örar og ástin kviknar. Hátíðin okkar allra!
Það er okkar verkefni núna næstu daga og nætur í Dalnum að gera þessa þjóðhátíð góða, safna minningum, sýna nýjum gestum og minna eldri gesti á um hvað þessi góða hátíð stendur fyrir.
Gerum þetta saman, verum góð hvert við annað, látum kærleikann ráða för.
Því þegar allt kemur til alls á þjóðhátíð erum við öll…. Eyjafólk.
Góða skemmtun!
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna