30 Júní 2022 16:19
Á þessum degi fyrir 48 árum, eða 30. júní 1974, mátti sjá fyrstu einkennisklæddu lögreglukonurnar að störfum á Íslandi. Þetta voru Dóra Hlín Ingólfsdóttir og Katrín Þorkelsdóttir. Dóra Hlín, sem nú er látin, starfaði í lögreglunni um áratugskeið og Katrín í allnokkur ár. Þær voru hluti af svokallaðri kvenlögregludeild hjá lögreglunni í Reykjavík, en deildin var sameinuð almennri löggæslu þess embættis 11. maí 1976.
Á annarri myndinni frá 30. júní 1974 má sjá Dóru Hlín með Sigurði M. Þorsteinssyni og Friðriki Pálssyni, en á hinni er Katrín með Sigurjóni Sigurðssyni lögreglustjóra. Dóra Hlín og Katrín eru svo með Guðlaugu Sverrisdóttir varðstjóra á þriðju myndinni.