30 Júní 2022 11:18
Í síðustu viku slösuðust tólf vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 19. – 25. júní, en alls var tilkynnt um 37 umferðaróhöpp í umdæminu.
Mánudaginn 20. júní kl. 16.19 var tilkynnt um umferðarslys í Bláfjöllum þar sem ökumaður hafði fallið af sexhjóli þegar það fór á hliðina. Hann var fluttur á slysadeild.Talið er að ökumaðurinn, sem var með öryggishjálm, hafi fengið aðsvif í aðdraganda slyssins.
Þriðjudaginn 21. júní kl. 14.40 var bifreið ekið vestur Hringbraut að gatnamótum Njarðargötu, á beygjurein fyrir vinstri beygju suður Njarðargötu, en var skyndilega skipt af beygjurein til hægri yfir á vinstri rein fyrir umferð vestur Hringbraut og þar hafnaði hún aftan á kyrrstæðri bifreið. Ökumaður aftari bifreiðannar, sem er grunaður um lyfjaakstur, var fluttur á slysadeild.
Miðvikudaginn 22. júní kl. 11.04 var vörubifreið ekið vestur Miklubraut að gatnamótum Lönguhlíðar og þar aftan á fólksbifreið, sem var að stöðva við stöðvunarlínu vegna þess að ljósastýringar gatnamótanna voru að skipta yfir af gulu ljósi í rautt fyrir umferð vestur Miklubraut. Ökumaður fólksbifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 23. júní. Kl. 15.15 var léttu bifhjóli ekið á gögustíg þar sem ökumaður missti stjórn á því þegar hann reyndi að sveigja frá gangandi vegfaranda og ók hann á auglýsingastand úr járn framan við inngang Garðatorgs. Vegfarandinn, sem varð fyrir bifhjólinu, var fluttur á slysadeild og ökumaðurinn einnig. Á bifhjólinu var enn fremur óleyfilegur farþegi, en sá virðist hafa sloppið við meiðsli. Kl. 18.02 var tilkynnt um umferðarslys í undirgöngum undir Reykjanesbraut við Mjóddina nálægt Landsbanka Íslands. Þar hafði hjólreiðamaður á reiðhjóli og hjólreiðamaður á rafmagnshlaupahjóli ekið saman þegar þeir mættust fyrir horn að austanverðu við göngin. Sá fyrrnefndi var fluttur á slysadeild, en sá síðarnefndi var farinn af vettvangi áður en lögreglan kom. Og kl. 18.13 var bifreið ekið vestur Nýbýlaveg, en við gatnamót Þverbrekku var henni ekið aftan á bifreið sem var kyrrstæð fyrir framan. Fremri bifreiðin var kyrrstæð vegna umferðar á undan, en rautt ljós var fyrir umferð vestur Nýbýlaveg á ljósastýringu gatnamótanna. Sú bifreið kastaðist áfram á þá þriðju. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild.
Föstudaginn 24. júní kl. 19.27 var tilkynnt um umferðarslys á Smiðjuvegi, en þar hafði maður dottið á rafmagnshlaupahjóli. Hann kvaðst hafa verið í farsíma á meðan hann var að aka hjólinu og óvart rekið sig í hraðastilli svo hann missti jafnvægið. Hjólreiðamaðurinn, sem var með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 25. júní. Kl. 19.27 var tilkynnt um umferðarslys á Hringbraut/Miklubraut við mislæg gatnamót Bústaðavegar og Snorrabrautar, en þar kviknaði í bifreið eftir að hún stöðvaðist. Talið er að bifreiðinni hafi verið ekið vestur Miklubraut, eftir aðrein inn á Bústaðaveg/Snorrabraut, og þar upp á götukant, síðan á ljósastaur, sem rifnaði upp frá jörðu, og þaðan áfram inn á Miklubraut í vestur inn á Hringbraut fram af steyptum veg, þar á annan ljósastaur þar sem bifreiðin staðnæmdist á akbraut fyrir umferð vestur Hringbraut neðan við vegginn. Tveir voru í bifreiðinni, sem vegfarendur hjálpuðu að komast út, en kviknað hafði í bifreiðinni eins og áður sagði. Vegfarandi slökkti eldinn með handslökkvitæki. Ökumaður og farþegi voru báðir fluttir á slysadeild, en síðan vistaðir í fangageymslu. Ökumaðurinn er grunaður um ölvunarakstur. Og kl. 21.55 var tilkynnt um umferðarslys á Varmárbakka þar sem tveimur léttum bifhjólum var ekið saman. Áreksturinn varð í blindbeygju á malarstíg. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild, en farþegi á hinu bifhjólinu leitaði sér læknisaðstoðar daginn eftir. Báðir voru með öryggishjálm.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.