2 Júní 2008 12:00
Um 100 grömm af kókaíni fundust við húsleit í íbúð í miðborg Reykjavíkur á föstudagskvöld. Innandyra voru tveir karlar á fertugsaldri og voru þeir báðir handteknir. Áður hafði lögreglan handtekið tvo aðra karla, sem eru á þrítugsaldri, í næsta nágrenni en í fórum annars þeirra fundust um 15 grömm af kókaíni. Í framhaldinu var farið í húsleit á öðrum stað í miðborginni og þar fannst lítilræði af kókaíni.
Fyrrnefndar aðgerðir eru liður í að hamla gegn sölu og dreifingu fíkniefna en á föstudag naut lögreglan á höfuðborgarsvæðinu aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra og fíkniefnaleitarhunds frá tollgæslunni.