18 Mars 2022 10:20
Í gær fór fram skrifborðsæfing á vegum almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra þar sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, heilsugæslan, Rauði krossinn, sveitarfélögin, Útlendingastofnun, utanríkisráðuneyti og félagsmálaráðuneytisins og fleiri hagsmunaaðilar æfðu viðbrögð við móttöku stórra hópa frá Úkraínu.
Markmið æfingarinnar var skipulag og flæði gegnum fjöldahjálparstöðvar, tryggja þær bjargir sem eru nauðsynlegar, manna og skipuleggja SST, AST, VST, virkja sveitarfélögin og almenning í landinu til þátttöku.
Ímyndað umfang verkefnisins, sem þó gæti raungerst á komandi vikum og mánuðum, hljóðaði upp á móttöku 450 manns til landsins á þremur dögum.
„Þetta er í raun æfing til þess að tryggja að allir viðeigandi aðilar séu í viðbragðsstöðu og búin að gera þær ráðstafanir sem hægt er að gera áður en við komumst á þennan stað. Mikil vinna er núna í gangi, bæði hér og víðar, í að greiða úr flækjum sem fylgja þeim mikla fólksflutningi milli landa sem heimsálfan er að eiga við. Samhliða þeirri vinnu verðum við að undirbúa okkur vel undir að hingað séu að koma mjög stórir hópar af fólki .“ – Jón Pétur Jónsson, yfirlögregluþjónn landamærasviðs