20 Maí 2008 12:00
Karl um þrítugt var handtekinn í Reykjavík á föstudagskvöld en í bíl hans fundust um 20 grömm af kókaíni. Í kjölfarið var farið á dvalarstað mannsins í borginni en þar fannst lítilræði af marijúana. Þá var hann með í fórum sínum um 150 þúsund krónur í peningum sem grunur leikur á að séu tilkomnir vegna fíkniefnasölu. Fíkniefnaleitarhundur var notaður við þessa aðgerð. Sama kvöld voru tveir aðrir karlar á líkum aldri handteknir fyrir fíkniefnamisferli. Annar í Hlíðunum en hinn í Breiðholti en báðir voru með kókaín meðferðis.
Á laugardag voru þrír karlar handteknir í íbúð Árbæ en á vettvangi fundust ætluð fíkniefni, þ.e. hass og marijúana. Mennirnir eru á þrítugs- og fertugsaldri. Piltur um tvítugt var handtekinn í sama hverfi en heima hjá honum fannst lítilræði af fíkniefnum. Piltur á svipuðum aldri var stöðvaður í miðborginni en sá var með fíkniefni í fórum sínum. Þá var karl á þrítugsaldri stöðvaður við akstur í miðborginni á laugardag en í bíl hans fundust fíkniefni. Maðurinn, sem hefur aldrei öðlast ökuréttindi, var ölvaður og reyndist einnig eftirlýstur fyrir aðrar sakir. Um helgina stöðvaði lögreglan einnig ökumann í Hlíðunum en sá var með marijúana í bílnum.