28 Febrúar 2022 14:14
Sjá skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra í heild sinni.
Hættustig vegna hryðjuverka er metið lágt. Greiningardeild ríkislögreglustjóra telur að almennt séu litlar líkur á að hryðjuverk verði framið á Íslandi. Ekki eru fyrirliggjandi sérstakar upplýsingar um hættu á hryðjuverkum né almennt talin sérstök ástæða til að auka viðbúnað lögreglu. Hættustig byggir á mati á ógn sem talin er geta stafað af mannavöldum.
Árið 2021 voru engar upplýsingar fyrirliggjandi hjá lögreglu sem bentu til þess að hér á landi væru starfandi skipulagðir hópar sem aðhyllast öfgafulla hugmyndafræði og hefðu bæði ásetning og getu til að skipuleggja og framkvæma hryðjuverk. Lögregla hefur ekki upplýsingar um að hér á landi hafi myndast samfélög sem styðja við eða fóstra ofbeldisfulla öfgahyggju.
Af áhættuþáttum þeim sem sammerktir eru aukinni hryðjuverkaógn í ríkjum heims eru tveir helstir; annar er veikt réttarvörslukerfi og hinn er sá að stórir hópar innan samfélags séu beittir eða telji sig beitta alvarlegu misrétti. Í þróuðum ríkjum eru samfélagslegir þættir á borð við jaðarsetningu eða mismunun ákveðinna hópa tengdir við aukna hryðjuverkaógn. Á meðal þróunarríkja er ógn vegna hryðjuverka oft tengd trúarlegum átökum, ættbálkaerjum og spillingu.
Í tvo áratugi hafa ríki Evrópu og Evrópusambandið unnið markvisst að því að sporna gegn hryðjuverkum. Á síðustu árum hafa ferðalög til átakasvæða verið bönnuð, eftirlit með einstaklingum sem grunaðir eru um að tengjast hryðjuverkastarfsemi hefur verið aukið, unnið hefur verið gegn áróðri öfgasinna bæði innan fangelsa og á internetinu t.d. hafa stórir samfélagsmiðlar verið hvattir til að vinna gegn slíkum áróðri, upplýsingamiðlun- og söfnun vegna hryðjuverkaógnar hefur verið aukin og styrkt líkt og TE-SAT skýrslur Evrópulögreglunnar eru til marks um. Auk þess hafa ríki Evrópu leitast við að styrkja ytri landamæri sín og alþjóðlega samvinnu gegn hryðjuverkum. Nú er svo komið að áhrif og umfang hryðjuverkastarfsemi innan ESB árin 2019-2021 eru marktækt minni en árin 2015-2018 og þakka má það m.a. aukinni áherslu á hryðjuverkavarnir.
Verulega hefur dregið úr getu alþjóðlegra hryðjuverkasamtaka á borð við ISIS og Al-Kaída til að fremja eða stýra hryðjuverkum á Vesturlöndum. Tölfræði Evrópulögreglunnar síðustu misseri sýnir að yfirgnæfandi meirihluti skráðra tilvika hryðjuverka á Vesturlöndum voru unnin af einstaklingum sem beittu til þess einföldum vopnum, í sumum tilvikum voru ástæður óljósar og einhverjum tilvika hefur reynst erfitt að meta geðheilbrigði viðkomandi.
Í frjálsu og opnu samfélagi er nánast ógerningur að koma í veg fyrir handahófskenndar árásir einstaklinga með einföldum vopnum. Hins vegar hefur á undanliðnum árum ítrekað auðnast að koma í veg fyrir áætlanir þar sem tveir eða fleiri gerendur hafa skipulagt árásir gegn opinberum aðilum í því skyni að hafa áhrif á stefnu stjórnavalda í viðkomandi ríki. Í flestum tilvikum hryðjuverkaárása á Vesturlöndum eru gerendur staðfestir ríkisborgarar viðkomandi ríkis.
Árið 2020 létust 21 í hryðjuverkaárásum innan ESB samanborið við 151 árið 2015. Mannfjöldi innan ESB er talinn liggja nærri 448 milljónum. Tölfræðilega má því telja afar ólíklegt að einstaklingar verði fyrir handahófskenndri hryðjuverkaárás innan ESB.
Á undanförnum árum hefur internetið leikið æ stærra hlutverk varðandi innrætingu ofbeldisfullrar öfgahyggju og annarrar hryðjuverkastarfsemi. Hryðjuverkamenn nýta sér vefsíður m.a. til þess að safna saman efni sem veitir hugmyndafræðilegan innblástur, til að eiga í öruggum samskiptum eða jafnvel í hagnýtum tilgangi t.d. með því að finna leiðbeiningabæklinga um sprengjugerð. Dæmi um starfsemi sem tengist hryðjuverkum á internetinu eru textar sem hvetja til hryðjuverka, leiðbeiningar um hvernig best sé að vinna hryðjuverk, myndskeið eða hljóðbrot sem sýna hryðjuverk eða sem lofsyngja starfsemi hryðjuverkasamtaka, hótanir gegn einstaklingum eða stofnunum t.d. á spjallrásum.
Auknar áhyggjur eru af vaxandi hægri-öfgahyggju víða um heim og stafar vaxandi hryðjuverkaógn af þeim sem hana aðhyllast. Sérstakar áhyggjur eru af innrætingu hægri-öfgahyggju hjá ungu fólki á netinu svo sem á samfélagsmiðlum og á spjallborðum tölvuleikja.
Í Noregi er það mat Öryggisþjónustu norsku lögreglunnar ,PST, að heimsfaraldur Covid- 19 hafi aukið enn á útbreiðslu ofbeldisáróðurs hægri-öfgasinna. Rökstuðningur PST er sá að atvinnuleysi og fjárhagsáhyggjur í kjölfar heimsfaraldursins hafi aukið óvissu sem auk einangrunar hafi haft í för með sér að fólk verji meiri tíma á internetinu og þar af leiðandi muni einhverjir þeirra nota meiri tíma á vefsvæðum hægri-öfgasinna.
Rannsóknir í Hollandi hjá National Coordinator for Counterterrorism and Security sýna að jíhadistar nota internetið í því skyni að dreifa áróðri og afla liðsmanna. Einnig geta hryðjuverkamenn nýtt internetið til að miðla upplýsingum sín ná milli. GRD telur hyggilegt að vanmeta ekki þátt internetsins þegar kemur að innrætingu ofbeldisfullrar öfgahyggju.
Á Norðurlöndum eru hryðjuverk afar fátíð enda eru jöfnuður og almenn velsæld óvíða meiri, réttarvörslukerfið sterkt, traust almennt mikið á lögreglu og dómstólum, samfélag gagnsætt og spilling lítil. Þó er nokkur breytileiki í áhættuþáttum á milli Norðurlanda sem hefur áhrif á mat þeirra á ríkjandi hryðjuverkaógn. Á meðal þessara áhættuþátta eru m.a. fjöldi heimsnúinna vígamanna, fjöldi staðfestra öfgasinna, fjöldi þeirra er sæta afplánun vegna hryðjuverkastarfsemi og fjöldi einstaklinga sem eru undir virku eftirliti vegna hryðjuverkastarfsemi.
Ísland er um margt líkt frændríkjum sínum á meginlandinu þ.e.a.s. hér er jöfnuður mikill, traust á réttarvörslukerfinu þ.m.t. lögreglu og dómstólum mikið. Með öðrum orðum hinir undirliggjandi samfélagslegu þættir sem taldir eru vinna gegn hryðjuverkaógn eru sterkir á Íslandi. Auk þess er samfélag okkar fámennt, einsleitt og landfræðilega einangrað og að því leyti til eru líkindi mikil við færeyskt samfélag þar sem ógn vegna hryðjuverka er talin lítil.
Á hinn bóginn eru þeir áhættuþættir sem taldir eru mynda eða auka hryðjuverkaógn á hinum Norðurlöndum ekki til staðar á Íslandi. Ísland er herlaust, íslenskir ríkisborgarar hafa ekki haldið héðan í því skyni að berjast með hryðjuverkasamtökum svo vitað sé, hér hefur ekki verið unnið hryðjuverk, enginn hefur verið dæmdur hér á landi fyrir hryðjuverkastarfsemi og af þeim sökum eru hér hvorki heimsnúnir vígamenn né einstaklingar sem sæta afplánun vegna brota á hryðjuverkalöggjöfinni.
Með fyrirvara um ákveðinn þekkingarbrest vegna ónógrar frumkvæðislöggæslu er það staðreynd að íslenska lögreglan hefur ekki staðfestar upplýsingar um að hér á landi hafi myndast samfélög eða hópar sem aðhyllast ofbeldisfulla öfgahyggju né heldur eru upplýsingar fyrirliggjandi hjá lögreglu um hópa sem hafi bæði ásetning og getu til að vinna hryðjuverk hér á landi. Með þessu er þó ekki sagt að útilokað sé að unnið verði hryðjuverk á Íslandi því líkt og fram hefur komið er það ógjörningur í opnu og lýðræðislegu samfélagi að koma í veg fyrir handahófskenndar árásir einstaklinga sem af einhverjum sökum hatast við samfélagið eða samborgara sína. Hins vegar eru líkur á að slíkar árásir falli undir ákvæði um hryðjuverk taldar litlar.
Nánari upplýsingar um málið veitir,
Gunnar H. Garðarsson, samskiptstjóri ríkislögreglustjóra.
gunnarhg@logreglan.is