15 Febrúar 2022 14:51
Í síðustu viku slösuðust sex vegfarendur í fimm umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 6. – 12. febrúar, en alls var tilkynnt um 33 umferðaróhöpp í umdæminu.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 7. febrúar. Kl. 7.50 var bifreið ekið vestur Sæbraut, en á móts við Laugarnestanga missti ökumaður stjórn á bifreiðinni svo hún hafnaði á enda vegriðs við umferðareyju, sem aðskilur akstursáttir. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.54 var bifreið ekið vestur Bústaðaveg að gatnamótum Flugvallavegar og þar aftan á bifreið fyrir framan, en ökumaður þeirrar bifreiðar hafði hægt á ferð bifreiðarinnar við gatnamótin. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 9. febrúar. Kl. 16.19 var bifreið ekið frá Höfðabakka 9 inn á gatnamót Höfðabakka og Bíldshöfða í vinstri beygju suður Höfðabakka á gænu ljósi. Á sama tíma gekk gangandi vegfarandi austur yfir Höfðabakka frá Bíldshöfða, á grænu gangbrautaljósi, og varð fyrir bifreiðinni. Ökumaðurinn sagði að tveir snjóskaflar við gangbrautina hefðu blindað honum sýn, auk þess sem sólin hefði verið lágt á lofti og blindað hann að einhverju leyti. Gangandi vegfarandinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.45 var bifreið ekið norður Vesturlandsveg, við Álfsnes í Kollafirði, þegar ökumaður missti stjórn á bifreiðinni svo hún rann yfir á öfugan vegarhluta og lenti framan á annarri bifreið sem ekið var suður Vesturlandsveg. Síðari bifreiðin kastaðist við áreksturinn inn á vegöxlina og að hluta til út af veginum. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild. Snjóþæfingur var á vettvangi.
Fimmtudaginn 10. febrúar kl. 17.42 var bifreið ekið austur Fellsmúla og beygt áleiðis til hægri suður Grensásveg, á grænu umferðarljósi, þegar gangandi vegfarandi gekk vestur yfir Grensásveg frá Skeifunni á grænu gangbrautarljósi á ljósastýringu gatnamótanna og varð fyrir bifreiðinni. Gangandi vegfarandinn var fluttur á slysadeild. Snjóruðningar voru meðfram vegi og var snjókrapi á akbrautinni.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.