28 Desember 2021 14:34
Í síðustu viku slösuðust fimm vegfarendur í fimm umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 19. – 25. desember, en alls var tilkynnt um 35 umferðaróhöpp í umdæminu.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 19. desember. Kl. 15.16 var bifreið ekið norður Barónsstíg, þvert yfir Hverfisgötu, þegar hjólreiðamaður hjólaði rafmagnshlaupahjóli á hjólastíg, sem liggur með og norðan við Hverfisgötu, og í vestur þvert inn á Barónsstíg og varð árekstur með þeim. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.30 var bifreið ekið austur Bæjarlind og beygt áleiðis í vinstri beygju að Bæjarlind 2 þegar léttu bifhjóli var ekið á akbrautinni sömu leið og varð árekstur með þeim. Ökumaður létta bifhjólsins var ekki með öryggishjálm, en hann var fluttur á slysadeild. Á hjólinu var enn fremur farþegi, en sá slapp betur.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 21. desember. Kl. 17.30 var bifreið ekið út úr hringtorgi vegamóta Skógarlindar og Lindarvegar þegar rafmagnshlaupahjóli var hjólað inn á gangbraut sem liggur yfir Lindarveg við hringtorgið og varð árekstur með þeim. Lögreglu var ekki tilkynnt um slysið fyrr en síðar, en ökumaður bifreiðarinnar ók hjóreiðarmanninum á slysadeild. Og kl. 18.03 var bifreið ekið vestur Stekkjarbakka á móts við hús nr. 7 (neðan við Stekki) og þar aftan á bifreið fyrir framan, sem hafði stöðvað skyndilega vegna umferðar á undan. Bifireiðin sem ekið var aftan á kastaðist áfram við áreksturinn aftan á þriðju bifreiðina sem var þar fyrir framan. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild.
Fimmtudaginn 23. desember kl. 4.11 var bifreið ekið Vesturlandsveg við mislæg vegamót Víkurvegar, en þar ók ökumaður út af veginum þar sem bifreiðin endaði á ljósastaur. Í aðdragandanum sofnaði ökumaðurinn undir stýri, en hann var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.