30 Desember 2021 18:02
Þrjátíu og tveir eru nú í einangrun á Austurlandi vegna COVID smits og hundrað og fimmtán í sóttkví.
Niðurstöðu úr sýnatöku frá í gær er enn beðið en gert er ráð fyrir að þær skili sér síðar í dag eða í kvöld. Í dag voru tekin um 100 sýni á Reyðarfirði og á Egilsstöðum. Þá voru 45 sýni tekin á Vopnafirði í morgun og 51 sýni í hádeginu. Niðurstöðu er að vænta á morgun. Sökum álags á sýkla- og veirufræðideild Landspítala síðustu daga hefur bið eftir niðurstöðum lengst. Því er nokkur óvissa um það hvenær niðurstöður liggja fyrir. Íslensk erfðagreining hefur nú stigið inn til aðstoðar en gera má ráð fyrir að nokkurn tíma taki að koma málum í fyrra horf. Vonum það besta.
Vegna fjölda COVID smita á landinu er mikilvægt sem aldrei fyrr að við gætum að okkur hvert og eitt. Sérstaklega skal gjalda varhug við margmenni og muna að huga vel að persónubundnum smitvörnum.
Auka sýnataka verður á Heilsugæslustöðinni á Reyðarfirði í bítið í fyrramálið, Gamlársdag, í bílskúr stöðvarinnar. Sýnatakan verður frá klukkan sjö til hálf átta. Með því að hafa hana svo snemma morguns munu sýnin komast tafarlaust til greiningar með morgunvélinni, en aðeins eitt flug er á morgun frá Egilsstöðum til Reykjavíkur. Þá verður sýnataka á Vopnafirði í fyrramálið einnig, frá kl. 08:10 til 08:30. Íbúar Austurlands eru hvattir til að nýta sér þessa tíma finni þeir til einkenna sem bent geta til Covid-19. Sýnataka er pöntuð á heilsuvera.is.
Engin sýnataka verður á Nýársdag en hins vegar sunnudaginn 2. janúar á Reyðarfirði kl. 09 – 10 og á Egilsstöðum kl. 11 – 12.
Staðan hér á Austurlandi líkt og annarsstaðar er þegar mjög viðkvæm og flest bendir til að smitum muni fjölga á næstunni. Því er mikilvægt að við gætum að okkur sem aldrei fyrr og hikum ekki við að fara í sýnatöku ef minnstu einkenna verður vart.
Höldum áfram að gera þetta saman.