2 Desember 2021 13:02
Í síðustu viku lést einn vegfarandi og þrír slösuðust í fjórum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 21. – 27. nóvember, en alls var tilkynnt um 29 umferðaróhöpp í umdæminu.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 25. nóvember. Kl. 8.32 varð banaslys við gatnamót Gnoðarvogs og Skeiðarvogs þegar kona varð fyrir strætisvagni og lést. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsaka tildrög slyssins. Og kl. 18.27 var bifreið ekið austur Nýbýlaveg við Þverbrekku þar sem ökumaður missti stjórn á henni og hafnaði bifreiðin á vegriði á umferðareyju, sem aðskilur akstursstefnur, og á ljósastaur sem þar er. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Föstudaginn 26. nóvember kl. 19.48 var bifreið ekið utan í kyrrstæða bifreið sem var lagt á frárein af Sæbraut/Reykjanesbraut (áleiðis austur Miklubraut/Vesturlandsveg. Ökumaður kyrrstæðu bifreiðarinnar var utan við hana að skipta um vinstra afturdekk, en sprungið hafði á hjólbarðanum. Hann var fluttur á slysadeild. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsaka tildrög slyssins.
Laugardaginn 27. nóvember kl. 18.14 var bifreið ekið suður Suðurgötu þegar annarri bifreið var ekið austur Hjarðarhaga, inn á gatnamót Suðurgötu, og varð árekstur með þeim. Biðskylda er á Hjarðarhaga gagnvart umferð um Suðurgötu. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.