2 Desember 2021 13:38
- „Ekki vera þessi gaur“ segir í nýrri herferð beint að 18-35 ára karlmönnum
- Tilgangurinn að skapa vitund um skökk viðhorf og hvar mörkin liggja í samskiptum
- Kynferðisbrotum hefur fjölgað aftur í ár eftir fækkun á síðasta ári
- Auglýsingar munu birtast á netinu og víðar á næstu dögum
Ríkislögreglustjóri (RLS) og Neyðarlínan hvetja karlmenn til að vera ekki „þessi gaur“ í sérstakri vitundarvakningu gegn kynferðisofbeldi sem beint er að mönnum á aldrinum 18-35 ára. Samkvæmt innlendri og alþjóðlegri tölfræði er það sá hópur sem fremur flest kynferðisbrot. Á næstunni verða birtar auglýsingar, sem byggja á herferðum frá Skotlandi og Kanada, m.a. í formi myndbands þar sem áhorfandinn er spurður hvort hann hafi einhvern tímann beitt konu þrýstingi, orðið fúll því kona vildi ekki fara heim með honum eftir stefnumót eða fundist kona skulda honum eitthvað eftir að hafa keypt handa henni drykk.
Herferðin á að vekja athygli á viðhorfum til kynferðisbrota og jafnframt benda á að kynferðisofbeldi byrji fyrr en margir haldi. Það sé jafnframt liður í að vinna gegn skrímslavæðingu gerenda að skapa umræðu um óeðlileg viðhorf í samskiptum karla við konur.
Mesti fjöldi tilkynninga um kynferðislega áreitni síðan 2010
Kynferðisbrotum hér á landi fækkaði umtalsvert í fyrra, sem rekja má til samkomutakmarkana vegna heimsfaraldurs, en þeim hefur fjölgað aftur í ár. Frá því í janúar til október á þessu ári voru skráð kynferðisbrot 547 en á sama tímabili í fyrra voru brotin 396 talsins. Meðaltal áranna 2017-2019 var 471 brot og því er um alvarlega þróun að ræða í þessum málaflokki.
Þá hefur tilkynningum um kynferðislega áreitni og brot gegn kynferðislegri friðhelgi sömuleiðis farið fjölgandi og hafa þau ekki verið fleiri frá árinu 2010. Skráð brot eru 85 það sem af er ári en í fyrra fækkaði þeim verulega. Þá voru skráð brot 49 en meðaltal síðustu þriggja ára þar á undan voru þau 61.
—
María Rún Bjarnadóttir, verkefnisstjóri gegn stafrænu ofbeldi hjá ríkislögreglustjóra: „Til þess að við náum sem bestum árangri í baráttu gegn kynferðisofbeldi í íslensku samfélagi er mikilvægt að karlar taki virkan þátt í að brjóta niður staðalímyndir og breyta þeirri menningu sem gerir að verkum að kynferðisbrot þrífast. Með því að karlar taki meðvitaða ákvörðun um að vera ekki „þessi gaur“ og hvetji félaga sína til að gera hið sama geta þeir verið hluti af lausninni við að binda enda á eitt rótgrónasta misrétti samtímans.“
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri: „Þessi mikla fjölgun kynferðisbrota sem við sjáum á þessu ári er uggvænleg. Þegar við í aðgerðateyminu gegn ofbeldi vorum að móta tillögur þá vorum við strax sammála um að það þyrfti að ná sérstaklega til gerendanna. Ungir karlmenn eru samkvæmt okkar tölfræði þeir sem fremja flestu brotin og við bíðum spennt eftir að sjá hvernig þeir taka í þessi skilaboð og hvort þetta leiði til meiri umræðu þeirra á meðal um mörkin í samskiptum við konur.“
Tómas Gíslason, aðstoðarframkvæmdastjóri Neyðarlínunnar: „Við hjá Neyðarlínunni finnum merkjanlega fyrir því að kynferðisbrotum hefur farið fjölgandi og raunar ofbeldisbrotum af ýmsu tagi. Í aldarfjórðung höfum við móttekið neyðarköll vegna ofbeldis og þykir okkur vera kominn tími til að taka þátt í forvörnum til að fækka þessum köllum. Lykillinn að því að draga úr ofbeldi þessa hóps, karlmanna á aldrinum 18-35 ára, er að auka þekkingu þeirra á óheilbrigðum samskiptum, skökkum viðhorfum í garð kvenna og hvernig þau stuðla að kynferðisbrotum. Við þurfum að gera karla meðvitaðri um hegðun sína gagnvart konum, hvernig hún getur látið þeim líða og þá hjálpað þeim að vera ekki „þessi gaur“.
Nánari upplýsingar veitir María Rún Bjarnadóttir í s: 698-8485 eða mrb@logreglan.is