14 Febrúar 2008 12:00
Lögregluskóli ríkisins leitar stöðugt leiða til að koma nauðsynlegum upplýsingum á framfæri við nemendur sína, bæði í grunnnámi skólans og framhaldsdeild hans. Ný námsgrein, sem fyrst og fremst fjallar um Evrópusamvinnu, þátttöku Íslands í alþjóðasamfélaginu og löggæslu án landamæra, er nú kennd við grunnnámsdeild skólans. Auk þess sem kennarar skólans kenna námsgreinina þá er leitað til sérfræðinga innan og utan lögreglunnar með kennsluframlag.
Megininntak námsgreinarinnar er að byggja upp aukna þekkingu nemenda á nýrri heimsmynd sem nú blasir við þannig að þeir, sem lögreglumenn framtíðarinnar, geti verið traustir hlekkir í lögreglu Evrópuríkja og öflugir þátttakendur í vörnum gegn alþjóðlegri og skipulagðri glæpastarfsemi, ógn af hryðjuverkum og öfgahópum, njósnastarfsemi og hverju því sem varðar öryggi íslenska ríkisins.
Nýlega nutu nemendur góðs af því að Arnar Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjórans, sem er tengifulltrúi embættis ríkislögreglustjóra hjá Evrópulögreglunni Europol, staldraði við og fræddi nemendur um Europol og kom á framfæri við þá ýmsum fróðleik um starfsemi stofnunarinnar. Það var sérstaklega ánægjulegt fyrir Lögregluskóla ríkisins að geta leitað til Arnars, sem er með starfsheitið „Liaison Officer“ hjá Europol, og er fyrstur til að gegna því starfi af hálfu íslenskra lögregluyfirvalda.
Meðal þess sem Arnar kynnti nemendum var vinna Europol í baráttunni við skipulagða glæpastarfsemi. Hann greindi þeim m.a. frá inntaki OCTA-skýrslu, sem svo er kölluð, (Organized Crime Trend Assement), en hún hefur verið gefin út árlega frá árinu 2006. Eitt af hlutverkum lögreglumenntastofnana aðildarríkja og samstarfsríkja Europol er að kynna lögreglunemum og lögreglumönnum lykilniðurstöður allra OCTA-skýrslna.
OCTA- skýrsla 2007, útgáfa fyrir almenning
Arnar Jensson fræðir nemendur um Europol
Arnar Jensson fræðir nemendur um Europol