19 Febrúar 2008 12:00
Síðdegis í gær handtók lögreglan á Vestfjörðum karlmann á þrítugsaldri. Húsleit var framkvæmd á heimili hans, á Ísafirði, í framhaldi af handtökunni. Við þá leit fundust um 100 grömm af hassi. Mest allt efnið virðist vera í sölueiningum og er málið rannsakað með tilliti til þess. Umræddur aðili hefur verið í haldi lögreglunnar frá því í gær og hefur nú verið sleppt eftir yfirheyrslu í dag. Málið telst upplýst, en játning liggur fyrir um að umræddur aðili hafi tekið við þessu efnismagni, ætlað hluta þess til að dreifa á norðanverðum Vestfjörðum en hinn hlutann til eigin neyslu.
Umræddur aðili hefur áður komið við sögu lögreglunnar vegna fíkniefnamála.
Lögreglan hvetur alla sem hafa grunsemdir um meðhöndlun fíkniefna að hafa samband og gera henni viðvart. Slíkt er hægt að gera í síma 450 3730, sem er upplýsingasími lögreglunnar á Vestfjörðum eða í símsvara 800 5005. Full nafnleynd er heitið öllum þeim sem veita slíkar upplýsingar.