10 Nóvember 2021 17:42
Í ljósi fjölda smita sem greinst hafa síðustu daga hvetur aðgerðastjórn til varkárni í hvívetna. Full ástæða er til að gæta sérstaklega að persónubundnum sóttvörnum eins og grímunotkun, handþvotti og sprittnotkun.
Aðgerðastjórn vill auk þess árétta eftirfarandi:
- Fylgjum innanlandsreglum eins og hingað til og göngum lengra ef vill. Persónubundnar sóttvarnir kunnum við og ráðum yfir og getum því gengið lengra en opinberar reglur kveða á um. Allt til að verja okkur sjálf og meðborgara okkar.
- Ef við höfum einkenni – förum þá í sýnatöku og sýnum fulla gát meðan beðið er niðurstöðu. Höldum okkur til hlés. Munum að þó við séum búin að fá leið á veirunni þá er hún hreint ekki búin að fá leið á okkur og gerir suma enn alvarlega veika.
- Fljótlega verður markvisst farið að bjóða fólki þriðju bólusetningu (örvunarskammt), enda sé hálft ár liðið frá sprautu nr. tvö. Slík viðbót hefur sýnt sig stórlega bæta varnir okkar gegn Covid-19 og er því mikilvægur liður í að takast á við Covid-bylgjuna sem nú stendur yfir og minnka líkur á að enn þurfi að herða mjög á sóttvörnum innanlands.
- Viðburðahald – Aðgerðastjórn hvetur þá sem halda viðburði, svo sem jólahlaðborð, að skoða þann möguleika að krefjast neikvæðs hraðprófs sem ekki má vera eldra en 48 klst gamalt, jafnvel þó slíkt gangi lengra en reglur segja til um. Ósk um slíkt má senda á netfangið sottvarnir@hsa.is
- Fyrirtæki og stofnanir – Aðgerðastjórn hvetur fyrirtæki og stofnanir til að huga að sínum innri málum líkt og gert var í fyrri bylgjum faraldursins.