2 Nóvember 2021 18:11
Á Austurlandi eru nú 4 í einangrun og 7 í sóttkví.
Okkur hefur gengið vel á Austurlandi í gegnum faraldurinn og sú velgengni byggir að miklu leiti á jákvæðni fólks og fylgni við reglur innanlands ásamt góðri þátttöku í bólusetningum. Þær sóttvarnareglur sem eru gefnar út af yfirvöldum hverju sinni eru lágmarksreglur og það er jákvætt að svigrúm hafi gefist til að slaka á þeim innanlands. Áfram getur þó hver og einn tekið ákvörðun fyrir sig og kosið að halda áfram í þær persónubundnu sóttvarnir sem við vitum svo sannarlega að hjálpa til við að hefta útbreiðslu Covid-19.
Aðgerðastjórn vill því hvetja íbúa fjórðungsins til að taka sjálfstæða ákvörðun um grímunotkun í fjölmenni, t.d. í innanlandsflugi, á samkomum eða í búðinni, jafnvel þó það sé ekki skylda lengur. Grímur eru einfaldar í notkun en árangursríkar í að verja okkur fyrir smiti en líka verja fólkið í kringum okkur ef við erum smitandi án þess að vita það.
Þá er handþvottur og sprittnotkun ekki síður mikilvægar persónubundnar sóttvarnir. Brýnt er því að á fjölmennum stöðum sé spritt til að mynda bæði sýnilegt og aðgengilegt.
Aðgerðastjórn óskar áframhaldandi samvinnu við íbúa og gesti Austurlands um það verkefni að halda faraldrinum niðri.
Gerum þetta saman.