29 Október 2021 15:27
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu hafa mælst áframhaldandi hreyfingar í hrygg við Búðará. Vatnshæð í borholum hefur hækkað lítillega í kjölfar rigninga síðustu daga og virðist sem hreyfingar í hryggnum séu í beinu sambandi við grunnvatnsstöðu.
Ekki er gert ráð fyrir mikilli úrkomuákefð næstu daga. Vel er þó fylgst með öllum hreyfingum sem fyrr í hlíðum ofan Seyðisfjarðar. Engar hreyfingar hafa mælst annarsstaðar en í hryggnum.
Íbúar eru áfram hvattir til varkárni á göngustígum meðfram Búðará og annars staðar þar sem varnargarðar beina skriðustraumum. Þá eru allir þeir sem leið eiga um Hafnargötu við Búðará og utan við Múla einnig beðnir um að sýna varkárni.
Til að auka enn öryggi þeirra sem leið eiga um Hafnargötu við Búðará hefur hlíðin þar fyrir ofan nú verið lýst upp. Þar er um bráðabirgðaútfærslu að ræða. Unnið er að varanlegri lausn.
Enn er í gildi óvissustig almannavarna á Seyðisfirði.
Minnt er á Hjálparsíma Rauða krossins 1717.
Á vef Veðurstofu Íslands er tilkynningarborði sem uppfærður er daglega um Seyðisfjörð þar sem hægt er að fá ítarlegri upplýsingar um vöktun og fleira, skoða staðsetningu svæðisins er um ræðir og hreyfingar á speglum.