22 Október 2021 16:22
Fundur var í dag með Veðurstofu, almannavörnum og Múlaþingi vegna áframhaldandi skriðuhættu á Seyðisfirði. Mælingar á speglum í hlíðinni sýna að enn er hæg hreyfing á hryggnum milli stóra skriðusársins frá í desember 2020 og Búðarár. Hryggurinn er talsvert sprunginn og mælar sýna að bútar hans færast ekki allir í sömu átt. Því er talið líklegt að hann fari niður í pörtum en ekki allur í einu. Óvíst er hvenær það gerist.
Vegna þessa eru íbúar sem fyrr hvattir til varkárni á göngustígum meðfram Búðará og annars staðar þar sem varnargarðar beina skriðustraumum. Þá eru allir þeir sem leið eiga um Hafnargötu við Búðará og utan við Múla beðnir um að sýna varkárni einnig.
Vel er fylgst með mælum í hlíðum ofan Seyðisfjarðar og viðeigandi ráðstafanir gerðar þyki ástæða til.
Enn er í gildi óvissustig almannavarna á Seyðisfirði.
Minnt er á Hjálparsíma Rauða krossins 1717.
Á vef Veðurstofu Íslands er tilkynningarborði um Seyðisfjörð þar sem hægt er að fá ítarlegri upplýsingar um vöktun og fleira, skoða staðsetningu svæðisins er um ræðir og hreyfingar á speglum.