11 Október 2021 17:42
Útreikningar á virkni leiðigarða og safnþróar undir óstöðugum hrygg milli stóru skriðunnar frá desember 2020 og Búðarár liggja nú fyrir. Samkvæmt þeim eru allar líkur á að varnargarðar og safnþró leiði skriðuna til sjávar en þar sem ennþá mælist hreyfing á hryggnum er ákveðið að halda enn rýmingu á þeim húsum er standa næst varnargarðinum.
Lögreglustjórinn á Austurlandi afléttir því rýmingu á þeim húsum sem fjær standa varnargörðum.
Þau fimm hús sem áfram verða rýmd eru:
Fossgata 5 og 7 og Hafnargata 10, 16b og 18c.
Hættustig almannavarna verður áfram í gildi.
Engar hreyfingar hafa mælst í hlíðum ofan Seyðisfjarðar utan þeirra er mælst hafa í hryggnum.
Öll óviðkomandi umferð um skriðusvæðið er óheimil. Umferð um göngustíga meðfram Búðará og annarsstaðar þar sem varnargarðar beina skriðustraumum verði áfram með aðgæslu.
Búið er að hafa samband við íbúa í þeim húsum sem rýmd voru á mánudag og þeim kynnt niðurstaðan. Herðubreið verður auk þess opin milli klukkan 18 og 19 í kvöld. Þar verður Teams fundur þar sem fulltrúar Veðurstofu, Múlaþings og Almannavarna munu sitja fyrir svörum. Öll velkomin.
Herðubreið verður einnig opin á morgun líkt og verið hefur milli klukkan 14 og 16. Þangað geta íbúar í húsum sem enn sæta rýmingu komið og hugað að húsum sínum undir eftirliti og í skamma stund. Ákvörðun um slíka heimild verður endurmetin eftir morgundaginn og niðurstaðan þá kynnt.
Minnt er á Hjálparsíma Rauða krossins 1717.
- Á bloggsíðu Veðurstofu Íslands er hægt að skoða staðsetningu svæðisins er um ræðir og hreyfingar á speglum, auk þess sem þar má fá ítarlegri upplýsingar um stöðu mála.
- Einnig er á Veðurstofu Íslands tilkynningarborði þar sem hægt er að nálgast upplýsingar um vöktun og fleira.