10 Október 2021 12:14
Hreyfingar mælast enn í hrygg í hlíðinni á Seyðisfirði milli skriðusársins frá desember 2020 og Búðarár. Vegna þess hversu brotinn hryggurinn er telst líklegt að hann fari af stað í smærri brotum fremur en allur í einu.
Unnið er útreikningum á því hvort leiðigarðar og safnþró taki við því efni sem óstöðugt er í hlíðinni, jafnvel þó það fari allt í einu. Niðurstaðan ætti að liggja fyrir strax eftir helgi. Ákvörðun um afléttingu rýmingar verður þá tekin.
Engar aðrar hreyfingar hafa mælst í hlíðum ofan Seyðisfjarðar.
Vatnshæð er hætt að hækka í öllum borholum í hlíðinni nema einni eftir rigninguna á fimmtudag og tekið að lækka í flestum þeirra. Lítil sem engin breyting er merkjanleg á vatnshæð í holunum eftir rigninguna frá í gær. Ekki er gert ráð fyrir úrkomu að nýju á Seyðisfirði fyrr en á miðvikudag.
Herðubreið verður opin í dag frá klukkan 14 til 16 líkt og verið hefur. Fulltrúi félagsþjónustu Múlaþings verður þar sem og lögregla. Öll velkomin.
Ekki er gert ráð fyrir að íbúar geti snúið til síns heima fyrr en eftir helgi. Öll óviðkomandi umferð um skriðusvæðið er óheimil.
Minnt er á Hjálparsíma Rauða krossins 1717.
- Á bloggsíðu Veðurstofu Íslands er hægt að skoða staðsetningu svæðisins er um ræðir og hreyfingar á speglum, auk þess sem þar má fá ítarlegri upplýsingar um stöðu mála.
- Einnig er á Veðurstofu Íslands tilkynningarborðiþar sem hægt er að nálgast upplýsingar um vöktun og fleira.