8 Október 2021 10:48
Hreyfing mælist enn í hlíðinni hægra megin milli skriðusársins frá desember 2020 og Búðarár. Unnið er að greiningu gagna um nákvæmar færslur í kjölfar rigninga í gær. Þær ættu að liggja fyrir síðar í dag. Engar aðrar hreyfingar hafa mælst í hlíðum ofan Seyðisfjarðar.
Um klukkan níu í gærkvöldi stytti upp eftir 40 mm úrkomu líkt og spáð var. Ekki er gert ráð fyrir rigningu í dag en lítilsháttar úrkomu á morgun, laugardag. Vel er fylgst með öllum mælum í hlíðinni ofan Seyðisfjarðar.
Herðubreið verður opin klukkustund lengur í dag en aðra daga, eða frá klukkan 14 til 17. Klukkan 16 verður Teams fundur í Herðubreið þar sem fulltrúar Veðurstofu munu mæta til framsögu og svara spurningum. Íbúar í húsum á rýmingarsvæðum eru sérstaklega hvattir til að mæta. Allir velkomnir.
Vegna úrkomu í gær og óvissu sem henni fylgir, verður ekki í boði fyrir íbúa á rýmingarsvæðum að fara inn í hús sín fram yfir helgi. Þá er öll óviðkomandi umferð um skriðusvæðið óheimil.
Minnt er á hjálparsíma Rauða krossins í síma 1717.
- Á bloggsíðu Veðurstofu Íslands er hægt að skoða staðsetningu flekans meðal annars og hreyfingar á speglum, auk þess sem þar má fá ítarlegri upplýsingar um stöðu mála.
- Einnig er á Veðurstofu Íslands tilkynningarborði þar sem hægt er að nálgast upplýsingar um vöktun og fleira.