18 Nóvember 2007 12:00
Lögreglan á Selfossi vinnur nú að rannsókn líkamsárásar sem pólskur verkamaður varð fyrir af hendi landa síns/sinna í gærkvöldi í vinnubúðum við Hellisheiðavirkjun. Lögreglunni barst tilkynning um árásina kl. 21:37 í gærkvöldi. Lögregla og sjúkralið fóru þegar á vettvang og var hinn slasaði fluttur á slysadeild í Reykjavík. Hann var með stungu- eða skurðsár á kálfa og læri auk annarra minni áverka. Gert var að sárum hans og hann síðan útskrifaður af slysadeild. Meintur gerandi hafði forðað sér af vettvangi þegar lögregla kom þangað í gærkvöldi en hann gaf sig fram við lögreglu Höfuðborgarsvæðisins um hádegisbil í dag og er hann nú í haldi lögreglu. Unnið er að skýrslutöku af þolanda og vitnum en mjög mikil ölvun var á vettvangi og frásagnir manna í samræmi við það. Vísbendingar eru um að fleiri aðilar en meintur gerandi og þolandi hafi tekið þátt í átökum sem leiddu til áverkanna.