26 Október 2007 12:00
Nokkuð af fatnaði var stolið úr þvottahúsi fjölbýlishúss í miðborginni í gær en á meðal þess sem saknað var eru gallabuxur og peysur. Í Laugardal hurfu símar og myndavélar úr öðru húsi og í Norðlingaholti var óprúttinn aðili á ferð og tók eldsneyti á bensínstöð og fór á brott án þess að greiða fyrir það.
Í Kringlunni voru tveir 13 ára piltar staðnir að hnupli og í Smáralind fengu fimm unglingar, 13-14 ára, sér veitingar á matsölustað en yfirgáfu staðinn án þess að borga reikninginn. Til þeirra náðist og var forráðamönnum þeirra gerð grein fyrir málinu. Og í nótt var karl á fertugsaldri handtekinn við fyrirtæki í miðborginni. Þar höfðu verið brotnar tvær rúður og töluvert rótað í hirslum innandyra. Hinn handtekni var blóðugur á báðum höndum þegar að var komið en maðurinn þjáðist af minnisleysi þegar hann var beðinn um skýra veru sína á þessum stað í nótt.