26 Maí 2021 12:28
Nýjar sóttvarnareglur tóku gildi í gær og voru rýmkaðar talsvert. Heimilt er nú allt að hundrað og fimmtíu einstaklingum að koma saman, hvort sem er í opinberum rýmum eða einkarýmum.
Njótum þessa en förum engu að síður varlega enda það ítrekað sýnt sig að veiran er lítt fyrirsjáanleg. Gætum að okkar persónubundnu smitvörnum sem fyrr og sýnum sérstaka aðgát þar sem margir koma saman, svo sem á menningar- og íþróttaviðburðum. Þar mega enn fleiri koma saman eða þrjú hundruð gestir að uppfylltum skilyrðum. Þau eru:
- Allir gestir séu sitjandi og ekki andspænis hver öðrum.
- Allir gestir séu skráðir í númeruð sæti, a.m.k. nafn, kennitala og símanúmer. Skráin skal varðveitt í tvær vikur og eytt að þeim tíma liðnum.
- Allir gestir noti andlitsgrímu nema þegar neytt er drykkjar- eða neysluvöru.
- Tryggt sé að fjarlægð milli ótengdra gesta sé a.m.k. 1 metri.
- Komið verði eins og kostur er í veg fyrir frekari hópamyndun fyrir viðburð, í hléi og eftir viðburð. Skipuleggjendum viðburða er skylt að tryggja þegar gestir eru ekki í sætum, svo sem fyrir og eftir viðburð og í hléi, að ekki komi fleiri saman en 150 manns og að leitast skuli við að hafa 2 metra nálægðartakmörkun milli ótengdra aðila.
- Umgengni í hverju hólfi skal vera í samræmi við leiðbeiningar sóttvarnalæknis þar að lútandi svo koma megi í veg fyrir blöndun milli hólfa.
Fylgjum þessum reglum, hvort heldur gestir eða gestgjafar, og siglum þannig skútunni ólaskaðri heim.