26 Apríl 2021 17:10
Ábendingar bárust lögreglu um hugsanlegt sóttvarnarbrot á Austurlandi á föstudagskvöld. Þá var árshátíð haldin í umdæminu og lék grunur meðal annars á að fjöldatakmarkanir hafi ekki verið virtar miðað við þær samkomutakmarkanir sem í gildi eru.
Rannsókn hófst á laugardag og telst lokið. Málið verður nú sent ákærusviði embættisins sem tekur ákvörðun um framhaldið. Sektir fyrir brot á reglugerð nr. 440/2021 um takmörkun á samkomum vegna farsótta sem gerðar eru forsvarsmönnum /skipuleggjendum samkomu skulu vera 250-500 þúsund samkvæmt fyrirmælum ríkissaksóknara.
Lögregla vill nota þetta tækifæri til að árétta þær sóttvarnareglur sem í gildi eru og hvetja til sérstakrar gætni þegar kemur að samkomum. Hún bendir á að hægt er að senda fyrirspurn til aðgerðastjórnar almannavarnanefndar á Austurlandi ef vafi leikur á túlkun sóttvarnareglna. Hægt er að senda slíkar fyrirspurnir á austurland@logreglan.is eða sottvarnir@hsa.is.