1 Ágúst 2007 12:00
Varðstjóri hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu hefur verið ákærður fyrir brot í opinberu starfi. Hann er sakaður um að hafa misnotað stöðu sína er hann nýtti sér mannafla og bifreiðar lögreglu í eigin þágu og gaf fyrirmæli um akstur með forgangsmerkjum en hann lét aka merktri lögreglubifreið í forgangsakstri á leið frá heimili sínu til Keflavíkurflugvallar þegar hann var á leið til útlanda í einkaerindum.
Ferilvöktun er á öllum lögreglubifreiðum og innra eftirlit lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu leiddi til þess að grunur vaknaði um brot þegar vart varð við forgangsakstur langt umfram hámarkshraða án tilefnis. Málinu var vísað til ríkissaksóknara sem hefur gefið út ákæru á hendur varðstjóranum. Varðstjórinn er ekki við störf á meðan málið er til meðferðar.