19 Apríl 2021 11:01
Ökumaður sem stöðvaður var eftir að hafa ekið bifreið sinni með 157 km/klst hraða um Suðurlandsveg við Laufskálavöru þann 13. apríl s.l. hafði komið með ferjunni til Seyðisfjarðar og var að drífa sig í sóttkví í Kópavogi. Hann lýkur máli sínu með sekt að upphæð 230 þúsund kr. og viðeigandi sviptingu ökuréttar í 3 mánuði. Annar ökumaður var stöðvaður á svipuðum slóðum þann 17. apríl og sá á 172 km/klst hraða. Sami sviptingartími þar en sektin 250 þúsund. Aðrir 21 voru stöðvaðir vegna hraðakstursbrota en mun veigaminni en þarna getur um.
Einn ökumaður var stöðvaður vegna gruns um að hann væri undir áhrifum fíkniefna og annar var stöðvaður vegna gruns um ölvun og fíkniefnaakstur.
2 umferðarslys voru tilkynnt til lögreglu í liðinni viku. Um annað þeirra hefur þegar verið fjallað hér á síðunni en þar varð árekstur með bifreiðum á gatnamótum Engjavegar og Tryggvagötu á Selfossi þegar aðili reyndi að komast undan lögreglu og fór yfir gatnamótin gegn rauðu ljósi á götuvita. Þann 18. apríl varð árekstur með tveimur bifreiðum sem ekið var um Biskupstungnabraut í gagnstæðar áttir. Krap og hálka var á vegi og virðist önnur bifreiðin hafa farið yfir á rangan vegarhelming. Tvennt var í annarri bifreiðinni en ökumaður einn í hinni. Meiðsl eru ekki talin alvarleg.
Björgunarsveit á Höfn var kölluð til aðstoðar frönskum göngumanni á skíðum á Vatnajökli eftir að aðstoðarbeiðni barst þar um þann 14. apríl. Aðstoðarbeiðnin var einkum vegna yfirvofandi illviðris en eins mun snjóblinda hafa verið farin að trufla göngumanninn og því efni til að gæta sérstaklega að öryggi hans. Aðgerðin gekk vel og fer ekki frekari sögum af ferðamanninum.
Björgunarsveitir í Rangárþingi og aðrir viðbragðsaðilar voru kallaðar til þann 16. apríl að Fiská við Þríhyrning þegar fjölskylda á leið þar um festi bíl sinn í ánni. Aðgerðin gekk vel og allir heilir eftir. Fjölskyldan hélt síðan för sinni áfram eftir að bifreiðin var laus úr ánni.
Þann 12. apríl var tilkynnt um heyrúllu á Þorlákshafnarvegi. Búið var að fjarlægja hana af vettvangi þegar lögregla kom þangað en full ástæða er til þess að binda rúllurnar á flutningatæki, hvort sem um er að ræða staka rúllu á kerru eða margar á flutningavagni. Rúlla sem fellur af bíl með 90 km/klst hraða veldur mikilli hættu fyrir aðvífandi umferð enda mikill massi á miklum hraða.
Tilkynnt var um innbrot sem framið hefur verið einhvern tíman á tímabilinu frá 14. til 15. apríl s.l. í hlöðu á sveitabæ í Bláskógabyggð og þaðan stolið einhverju af verkfærum frá verktaka sem geymdi þau þar vegna vinnu á bænum. Málið er í rannsókn