2 Ágúst 2007 12:00
Hraðferð fjögurra manna fjölskyldu frá Rússlandi lauk á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi um ellefuleytið í morgun en fólkið var á leið til höfuðborgarinnar. Lögreglan stöðvaði bíl fjölskyldunnar enda var honum ekið á 139 km hraða. Pabbinn var við stýrið og við hlið hans, andspænis loftpúða, sat sonurinn. Drengurinn, sem er 9 ára, var ekki með bílbelti. Mamman sat í aftursæti og hélt á dótturinni í fanginu en sú litla er 4 ára. Þær mæðgur notuðu sama bílbeltið.
Fjölskyldunni var fylgt á lögreglustöð og þar var gengið frá greiðslu vegna fyrrgreindra umferðarlagabrota en sektin var samtals 100 þúsund krónur. Aðspurð um háttalag sitt sögðust foreldrarnir hafa verið á hraðferð. Fjölskyldan ætti bókað flug frá landinu nú síðdegis en ætlunin var að ná að skoða Gullfoss og Geysi áður en farið væri af landi brott.