31 Mars 2021 17:24
Sextán smit eru sem fyrr skráð í fjórðungnum, öll landamærasmit.
Þeir níu skipverjar súrálsskipsins sem liggur nú við Mjóeyrarhöfn á Reyðarfirði og voru án Covid við komu skipsins til hafnar þann 20. mars síðastliðinn eru enn einkennalausir. Síðasta skimun hjá þeim var 29. mars síðastliðin og var eðlileg. Hinir smituðu um borð þykja heldur að braggast.
Framundan er páskahátíðin þar sem alla jafna er mikið um að fjölskyldur og vinir safnast saman og víða að. Full ástæða er til að fara þar um með mikilli gát því enn eru talsvert mörg COVID smit að greinast á landinu utan sóttkvíar. Þá eru vísbendingar um að bólusettir geti borið smit með sér þó frískir séu og án allra einkenna. Förum því varlega á þessum stórhátíðisdögum, hvort heldur bólusett eða óbólusett. Gætum öll að því sama, að tveggja metra reglunni okkar góðu, grímunotkun, handþvotti og sprittnotkun. Síðast en ekki síst að vera heima ef einkenni gera vart við sig og hafa þá samband í síma 1700.
Höldum þessar góðu reglur, hugum hvert að öðru og förum þannig hratt og örugglega yfir þennan vandræðahjall sem við nú klífum.