24 Mars 2021 18:01
Tíu COVID smit eru á Austurlandi, öll í skipi við bryggju á Reyðarfirði í Mjóeyrarhöfn. Aðgerðastjórn metur ekki yfirvofandi hættu af dreifingu smita frá skipinu.
Ríksstjórnin hefur tilkynnt mjög hertar sóttvarnaaðgerðir vegna mikillar aukningar innanlandssmita síðustu daga. Reglurnar taka gildi frá miðnætti í kvöld. Þessar eru helstar; fjöldatakmörk eru 10 manns fyrir alla sem fæddir eru 2014 eða fyrr og gildir meðal annars um erfidrykkjur og fermingarveislur. Þá eru sviðslistir og hliðstætt óheimilt, skólum lokað fram að páskafríi, sund- og baðstaðir lokaðir sem og heilsu- og líkamsræktarstöðvar og verulegar takmarkanir á íþróttastarfi, hertar reglur á veitingahúsum o.fl.
Aðgerðastjórn hvetur fólk til að kynna sér reglurnar sem finna má á: Stjórnarráðið | COVID-19: Stórhertar sóttvarnaaðgerðir taka gildi á miðnætti – fjöldatakmörk 10 manns (stjornarradid.is)
Þá hvetur aðgerðastjórn fólk líka til að leita frekari upplýsinga á heimasíðum sinna sveitarfélaga.
Síðast en ekki síst er áréttað mikilvægi persónulegra sóttvarna svo sem tveggja metra fjarlægðarmarka, handþvottar, grímunotkunar og sprittnotkunar á snertiflötum
Jákvætt er að bólusetningar í fjórðungnum ganga prýðilega og eru unnar samkvæmt forgagnsröðun reglugerðar þar um. Aukinn kraftur mun nú koma í bólusetningar þar sem sú góða frétt hefur borist frá sóttvarnalækni að aftur megi hefja notkun AstraZeneca bóluefnis. Nánari upplýsingar varðandi bólusetningar verða birtar á heimasíðu og fésbókarsíðu HSA síðar í dag eða kvöld.
Aðgerðastjórn væntir þess að eiga hér eftir sem hingað til gott samstarf við íbúa en það er á grunni þess sem velgengni okkar í faraldrinum hefur byggt fram að þessu.
Höldum áfram á okkar góðu vegferð og sjáum þannig til þess í sameiningu að við komumst öll í mark.