28 Ágúst 2007 12:00
Í gær fann ferðahópur sem var á ferð neðst í Svínafellsjökli muni sem talið er að tilheyri þýsku ferðamönnunum tveimur sem leitað var að í síðustu viku.
Þyrla LHG, TF-EIR, er farin á staðinn með fulltrúa frá Ríkislögreglustjóra auk þess sem fjallamenn úr björgunarsveit Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Höfn eru á staðnum ásamt lögreglumanni frá lögreglustjóranum á Eskifirði. Þyrlan mun flytja björgunarsveitarmennina upp á jökulinn þaðan sem þeir munu leita leiðina milli tjaldbúða hinna týndu og þess staðar sem munirnir fundust. Einnig mun þyrlan leita svæðið úr lofti.
Þessi fundur gefur tilefni til að leita nánar svæði sem þegar hefur verið leitað þrátt fyrir að það hafi verið talið mjög ólíklegt vegna þeirra vísbendinga sem þá lágu fyrir.
Ríkislögreglustjórinn Slysavarnafélagið Landsbjörg Lögreglustjórinn á Eskifirði