6 Júní 2007 12:00
Tveir 16 ára piltar komust í hann krappan þegar þeir köstuðust af svokallaðri sæþotu (Jet Ski) um hálftólfleytið í gærkvöld. Félagarnir voru á Arnarnesvogi og um 50 metra frá landi þegar óhappið varð. Þarna er nokkur straumur sem bar sæþotuna fljótt frá piltunum sem afréðu þá að synda í land. Þeir voru eðlilega kaldir og hraktir þegar komið var á þurrt en varð þó ekki sérstaklega meint af. Það skal tekið fram að piltarnir voru íklæddir göllum sem eru jafnan notaðir þegar farið er á sæþotu.
Óvíst er um málalok ef félagarnir hefðu þurft að synda lengri leið en annar þeirra var nokkuð þrekaður eftir þessa raun. Af sæþotunni er það að segja að hún rak í áttina að Kópavogshöfn. Lögreglubátur var sendur á eftir sæþotunni og fannst hún fljótlega.