13 Apríl 2007 12:00
Sextán ára piltur fingurbrotnaði í Kópavogi í gærmorgun. Pilturinn og félagi hans, sem er ári eldri, voru að fikta með sprengiefni þegar óhappið varð. Sá slasaði datt þegar hann var að kasta frá sér heimatilbúinni sprengju og við það fingurbrotnaði hann eins og fyrr segir. Í fórum piltanna voru fleiri heimatilbúnar sprengjur sem lögreglan haldlagði.
Í hádeginu datt kona við Krísuvíkurkirkju. Konan, sem er hér á ferðalagi ásamt fjölskyldu sinni, var flutt á slysadeild en hún mun hafa fótbrotnað.
Og síðdegis slasaðist karlmaður á þrítugsaldri við vinnu sína í Sundahöfn. Sá klemmdist á milli tveggja vörulyftara. Ekki er vitað frekar um meiðsli hans.