24 Apríl 2007 12:00
Í morgun handtók lögreglan á Selfossi mann á fertugsaldri eftir eftirför sem hófst á Krísuvíkurvegi í Selvogi. Ástæða eftirfararinnar var sú að lögregla var að svipast um eftir sendiferðabifreið sem hafði verið stolið í Keflavík í nótt. Í Selvogi vildi svo til að lögreglumenn mættu bifreiðinni og gáfu ökumanni hennar stöðvunarmerki sem hann sinnti ekki. Hófst þar með eftirför þar sem ökumaður sendibifreiðarinnar ók hratt og ógætilega þar á meðal í gengum bæjarhlaðið á Hrauni í Ölfusi. Eftirförinni lauk þar sem ökumaður ók inn að sandgryfjum vestan við Óseyrarbrú þar sem hann var króaður af. Hann brá á það ráð að hlaupa frá bifreiðinni en átti þung spor í lausum sandinum og með fráa lögreglumenn á hælum sér gafst hann upp. Félagi mannsins var á annari bifreið og kom skömmu síðar í lögreglustöðina og var handtekinn þar. Í bifreið hans fannst biblía og sálmabók merkt Krísuvíkurkirkju. Sá maður hafði komið við í Krísuvíkurkirkju og tekið bækurnar þar. Í sendibifreiðin var full af glugga- og hurðakörmum og leikur grunum á að félagarnir hafi stolið því í Keflavík. Það mál er til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurnesjum.
Ökumaður sendibifreiðarinnar var sviptur ökurétti til bráðabirgða vegna háskaaksturs og meintra fíkniefnaáhrifa við aksturinn.