5 Mars 2007 12:00
Sextíu og fjögur umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina, flest minniháttar. Í þremur tilfellum var fólk flutt á slysadeild en í þeim hópi var 17 ára piltur sem velti bíl sínum á Suðurlandsvegi. Þrjú óhöpp má rekja til ölvunar eða aksturs undir áhrifum lyfja.
Fimmtíu ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur um helgina en þeir voru stöðvaðir víðsvegar um umdæmið. Nokkrir þeirra eiga ökuleyfissviptingu yfir höfði sér. Þeirra á meðal eru tveir piltar sem voru teknir á Fiskislóð en þar er leyfður hámarkshraði 50. Bílar piltanna voru hins vegar mældir á 112 og 117 km hraða. Ökumennirnir eru 17 og 18 ára en sá yngri fékk bílpróf í síðasta mánuði. Sá eldri hefur nokkrum sinnum áður verið tekinn fyrir hraðakstur. Annar 17 ára piltur var tekinn á Vesturlandsvegi í Mosfellsbæ á 123 km hraða. Tvítugur karlmaður var stöðvaður á Hafnarfjarðarvegi en hann ók á 130 og á sama stað var jafngömul kona tekin á 120. Jafnaldra hennar var stöðvuð á Álfhólsvegi þar sem leyfður hámarkshraði er 30 en kona ók á 66 km hraða. Fleiri dæmi mætti nefna til sögunnar en lögreglan á höfuðborgarsvæðinu biður ökumenn að flýta sér hægt.
Sex ökumenn voru stöðvaðir fyrir að aka gegn rauðu ljósi og sjö fyrir að tala í síma án þess að notast við handfrjálsan búnað. Skráningarnúmer voru tekin af sex ökutækjum, fjögur voru ótryggð og tvö höfðu ekki verið færð til skoðunar.