16 Mars 2007 12:00
Samband sunnlenskra kvenna, afhenti í síðustu viku Ólafi Helga Kjartanssyni lögreglustjóra á Selfossi 100.000 krónur til kaupa á fíkniefnahundi. Það voru þær Rosemarie Þorleifsdóttir formaður SSK og Magðalena Jónsdóttir gjaldkeri sem færðu lögreglustjóranum gjafabréf með þeim orðum að sambandið bæri mikla umhyggju fyrir börnum sínum og barnabörnum og væru með þessu framlagi að leggja sitt af mörkum í baráttunni við fíkniefnin. Ólafur Helgi þakkaði fyrir rausnarlegt framlag og þann góða hug sem væri að baki. Um leið lét hann í ljós mikla ánægju með þá breiðu samstöðu einstaklinga, félagasamtaka og fyrirtækja sem komið hafa að fjársöfnun vegna fíkniefnahundsins. Ólafur Helgi upplýsti að hundurinn, sem nefdur hefur verið Bea, væri komin til landsins og væri nú í lokaþjálfun. Stutt er í að Bea fari að vinna sitt verk, ári eftir að fyrsta peningagjöfin barst til verkefnisins. Bea hefur fengið góða dóma og sögð mjög efnileg. Ekki er vafi á því að Bea á eftir að koma að miklu gagni á Suðurlandi á komandi árum. Sunnlendingar hafa með þessu átaki sýnt i verki að ekki verði liðið að fíkniefnasalar ýti fíkniefnum að börnum og unglingum. Þetta er því mikil hvatning fyrir lögregluna og ómetanlegt að hafa þetta bakland þegar glímt er við þann harða heim sem fíkniefnin hafa skapað.
Ólafur Helgi Kjartansson lögreglustjóri tekur við gjafabréfinu úr hendi Rosemarie Þorleifsdóttur formannsi SSK, við hlið hennar er Magðalena Jónsdóttir gjaldkeri SSK.