29 Mars 2007 12:00
Sautján ára piltur var tekinn fyrir hraðakstur í Ártúnsbrekku um tíuleytið í gærkvöld en bíll hans mældist á 136 km hraða. Það sem gerir mál piltsins dálítið sérstakt er sú staðreynd að ökuskírteini hans var gefið út í gær en ungi maðurinn er nýbúinn að fagna 17 ára afmæli sínu. Fyrir umferðarlagabrot af þessu tagi er 75 þúsund króna sekt og svipting ökuleyfis í einn mánuð. Pilturinn fær því tíma til að hugsa ráð sitt og vonandi stendur hann sig betur þegar hann snýr aftur út í umferðina.
Töluvert var um hraðakstur á höfuðborgarsvæðinu á síðasta sólarhring og voru tæplega fimmtíu ökumenn teknir fyrir þær sakir. Fleiri ungir piltar komu þar við sögu en einn 18 ára var stöðvaður á Hafnarfjarðarvegi en bíll hans mældist á 127 km hraða. Sami piltur var tekinn fyrir ámóta hraðakstur á Kringlumýrarbraut í síðasta mánuði. Þetta eru raunar ekki fyrstu umferðarlagabrot piltsins en hann fékk bílpróf síðasta sumar. Um haustið var hann sviptur ökuleyfi í þrjá mánuði en virðist lítið hafa lært af þeirri reynslu sé miðað við háttalag hans undanfarið.
Grófasta brotið í gær var hinsvegar framið á Vesturlandsvegi en þar mældist bíll tvítugs karlmanns á 148 km hraða. Sá hefur áður verið staðinn að hraðakstri en þó ekkert í líkingu við þetta.