8 Febrúar 2007 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar fólk við óprúttnum aðilum sem hringja í nafni líknar- og góðgerðarsamtaka og segjast vera að safna fé. Strangar reglur gilda um slíkar fjársafnanir og ekki á færi allra að stunda þannig starfsemi. Borið hefur á því undanfarið að hringt sé í fólk í nafni Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur og það beðið um að láta í té greiðslukortanúmer sín og gildistíma. Með því að gefa slíkar upplýsingar er hægt að taka út umtalsverðar fjárhæðir án þess þó að þær renni til góðgerðarmála. Tekið skal fram að áðurnefnd mæðrastyrksnefnd stendur ekki fyrir þeirri söfnun sem hér var lýst að framan.
Ágæt regla er að hafa samband við viðkomandi líknar- eða góðgerðarsamtök og spyrja hvort verið sé að safna fé í þeirra nafni. Þetta ber að gera áður en gefnar eru upplýsingar um greiðslukorta- eða reikningsnúmer. Með því má staðreyna hvort um er að ræða raunverulega söfnun eða fjársvikastarfsemi.