6 Janúar 2007 12:00
Verkefni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eru hin margvíslegustu og dæmi um það er útkall sem lögreglumenn sinntu í gærmorgun. Þá fréttist af hálfþrítugum karlmanni sem gekk um nakinn í miðborginni. Þegar að var komið reyndist maðurinn sannarlega nakinn en hann var í annarlegu ástandi og var því færður á lögreglustöð.
Eftirlit var haft með útvistartíma barna og unglinga í gærkvöld. Flestir virða útivistarreglur en þó ekki allir. Lögreglumenn höfðu afskipti af níu ára stúlku sem var í söluturni í Kópavogi um tíuleytið. Aðspurð sagðist hún hafa verið send út í sjoppu af móður sinni. Samkvæmt útivistarreglum má þessi stúlka ekki vera á almannafæri eftir klukkan 20:00 nema í fylgd með fullorðnum. Henni var ekið til síns heima en móðir hennar lofaði því að þetta myndi ekki endurtaka sig. Þá var bíll stöðvaður í Kópavogi um hálfþrjúleytið í nótt en á meðal farþega var 14 ára stúlka. Hún átti að vera löngu komin í háttinn og gat gefið lítt haldbærar skýringar á þessari útivist. Haft var samband við foreldra hennar en þeir óskuðu þess að hún kæmi heim til sín hið fyrsta og lögreglan varð að sjálfsögðu við því.
Og eitt til viðbótar af verkefnum gærdagsins en lögreglumenn við hefðbundið eftirlit í Breiðholti stöðvuðu 17 ára ökumann í umferðinni í gær. Í bíl hans fundust þrjár axir sem ökumaðurinn átti erfitt með að gera grein fyrir og voru þær því haldlagðar.