6 Ágúst 2020 15:32
Töluvert hefur verið um þjófnaði á höfuðborgarsvæðinu undanfarið og full ástæða er til að minna fólk á að vera á varðbergi. M.a. er um að ræða þjófnaði á reiðhjólum, rafmagnshlaupahjólum og vespum, auk þess sem nokkuð hefur verið um innbrot í bæði bíla og á byggingarsvæði. Fólk er því hvatt til að geyma reiðhjól og vespur innandyra, ef það hefur tök á, og umráðamenn ökutækja er minntir á að hafa ekki hluti í augsýn, sem kunna að freista þjófa. Viðbúið er að hinir illa fengnu hlutir séu boðnir til kaups og því nauðsynlegt að hafa varan á. Lögreglan ítrekar jafnframt að fólk láti vita um grunsamlegar mannaferðir (taki ljósmyndir ef slíkt er mögulegt) og að það skrifi líka hjá sér, t.d. bílnúmer eða jafnvel lýsingar á fólki, ef eitthvað óvenjulegt á sér stað í umhverfi þess.
Upplýsingum má koma á framfæri í síma 444-1000, með einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eða í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu vegna yfirstandandi innbrots skal undantekningarlaust hringja í 112.