19 Janúar 2007 12:00
Níu ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur á höfuðborgarsvæðinu á síðasta sólarhring en það er óvenju mikið á þessum tíma vikunnar. Fimm voru stöðvaðir í Reykjavík, þrír í Hafnarfirði og einn í Garðabæ. Þetta voru sjö karlmenn á aldrinum 18-44 ára og tvær konur, önnur tvítug en hin hálfsextug. Sú yngri gaf upp rangt nafn en við frekari eftirgrennslan kom jafnframt í ljós að hún var þegar svipt ökuleyfi. Einn karlanna, sem var tekinn fyrir ölvunarakstur, ók á umferðarljós og stöðumæli áður en hann var stöðvaður.
Þrjátíu umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær. Tíu ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur og fimm fyrir að aka gegn rauðu ljósi. Þá voru skráningarnúmer klippt af nokkrum ökutækjum sem voru ótryggð eða höfðu ekki verið færð til skoðunar.